3.9.2007 | 00:08
Stóra tækifærið
Ég hef oft sagt það hér og segi það enn aftur. Ég á yndislega fjölskyldu þó svo hver sé með sínu lagi í henni.
Fréttin sem ég var að luma á er sú að Villi bróðir var að bjóða mér að koma til sín í heimsókn. Hann býr ekki alveg í næsta húsi heldur alveg hinu megin á hnettinum í Greyton syðst í Suður Afríku. Ég átti ekki von á því að ég hefði nokkurn tímann tækifæri til að heimsækja hann þangað og fannst mjög erfitt þegar hann flutti þangað. En nú býður hann stóru systir til sín. Og auðvita sagði ég já takk Villi minn.
Þetta er ótrúlegt og eitthvað sem ég átti ekki von á. Síðan ég fékk fréttirnar hef ég velkst til og frá með alls kyns kvíðavænlega hluti og reynt að leifa þeim ekki að magnast upp. Ég er ekki ferðavön í útlöndum og ömurleg vægast sagt í tungumálum. Heilsufarslega illa fær um ferðalagið sem tekur sólahring tæpan, þar af 12 tíma flug samfleytt. Veit ekki hvað mitt króníska grindarlos segir til um það og hvort ég verði fær um gang eftir það.´
En ég skal og veit að þetta verður erfitt ferðalag en örugglega æðislegt tækifæri til að hitta þann bróðir minn sem ég hef verið nánust gegnum tíðina. Ég hlakka mikið til að dvelja með strákunum úti og fá að sjá hvernig þeir búa og lifa. Hvort þetta er tóm sápuópera eins og bloggið þeirra gefur til kynna eða hvað.
Ég á stórafmæli verð 50 ára í október og stefni á að vera úti á afmælinu. Hér heima hef ég fundið fyrir miklum þrýstingi á að halda veglega veislu en það er ekki það sem ég vil. Ég er alveg til í að halda veislur fyrir aðra en þegar kemur að mínum eigin afmælum vil ég fá að hafa það með mínu lagi og helst ekki neitt tilstand. Svo þetta boð þeirra Villa bróðir og Guðmundar mágs kemur á besta tíma fyrir mig.
Nú þarf ég víst að undirbúa ýmislegt, skilst ég verði að fara í hinar ýmsu sprautur og athuga eitt og annað og hamstra lyf. Já skrítilega orðað en svona er þetta. Ég er mígrenisjúklingur og þarf að taka lyf við köstunum sem ég fæ að meðaltali þrjú á viku. Og það er bara afgreiddar sex töflur í einu. Svo ég er fastagestur í apótekunum. Ekki það að þetta sé ávanabindandi lyf heldur bara fáránlegar reglur um lyf sem virkar vel á mígreniköst og ekki hægt að nota á neitt annað. Og hefur þar að auki hundleiðinlegar aukaverkanir.
Var með fjölskyldukvöldverð áðan þar sem ég fékk fjölskylduna til að stappa í mig stálinu og ráðleggja mér eitt og annað. Alltaf gott að borða saman og hittast.
Jæja meira um þetta seinna.
Athugasemdir
Hljómar spennandi. Þú færð bara öll þau læknisráð sem til eru og ferð eftir þeim! Veit samt að það er ekkert grín að sitja kyrr í flugsæti og ekki það besta fyrir grindarlos. Það hlýtur samt að vera lausn á þessu. Mígrenið er verra. Dóttir mín er búin að fá mígreniköst síðan hún var um 4 ára en hennar eru ekki svona tíð og ganga fljótt yfir sem betur fer. Hún veit hvað hún er heppin að fá þau ekki jafnslæm og þú og fleiri þótt best sé auðvitað að sleppa þeim alveg...
Laufey Ólafsdóttir, 3.9.2007 kl. 00:40
Takk fyrir góð ráð. Já líklega flýg ég gegnum London til Cape Town og fæ snilling til að finna verð og bestu tíma.
Líklega fæ ég sem mest er um vert fyrir mig ferðafélaga sem getur farið með mig alla leið svo kvíðaþættinum vegna tungumála og flugstöðva yrði kippt í burtu. Allt að skýrast næstu daga.
Já Laufey fyrsta verk morgundagsins verður að hringja í doksa og fá ráðleggingar varðandi sprautur og lyfjamálin flóknu. Flókið að vera með marga mismunandi sjúkdóma. Svo panta tíma hjá Sjúkraþjálfanum til að fá hann til að ráðleggja mér og koma mér í sem best form.
Svo þarf ég víst að panta tíma hjá tveimur tannlæknum, annan til að kíkja á fyllingu og hinn til að endurnýja kæfisvefnsgóminn. Jú og panta tíma hjá augnlækni skilst að ´hægt sé að fá gleraugu á viðráðanlegu verði í útlöndum.
Úff brjálað að gera :-) en tómt gaman
Ása Hildur Guðjónsdóttir, 3.9.2007 kl. 01:26
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.