Cockoo's Nest

Rakst á þetta HÉR á visir.is  Rétt er að benda á að þarna eru margar rangfærslur og fréttin ekki komin frá Halaleikhópnum. Fyrir það fyrsta er leikhópurinn ekki leikhópur fatlaðra heldur er eitt af markmiðum með honum að “iðka leiklist fyrir alla„ þar er átt við jafnt fatlaða sem ófatlaða. Þetta er sem sagt blandaður leikhópur opin öllum. Við erum ekki að hefja æfingar fyrr en í nóvember og höfum starfað í 15 ár um þessar mundir en ekki 12 eins og stendur í fréttinni. Fjöldi þeirra sem mun taka þátt er heldur ekki ljós enn svo segja má að þessi frétt sé afar illa unnin og ekki fengist um fá staðreyndir á hreint. Merkilegt þegar þeir bulla upp fréttir og birta en þegar við sendum inn fréttir þá er undir hælinn lagt hvort þær fást birtar.

Sem minnti mig á að setja þetta inn og benda ykkur á þið eruð öll velkomin:

Þankaroksfundur

Verður á miðvikudagskvöldið 5. sept. nk. kl. 20.30 í Halanum, Hátúni 12, vegna fyrirhugaðrar uppsetningar Halaleikhópsins á Gaukshreiðrinu. Allir sem hafa áhuga á þessu verki, hvort sem þeir ætla að vera með eða ekki, eru velkomnir. Guðjón Sigvaldason kemur og segir okkur frá sínum hugmyndum og við fáum tækifæri til að koma með okkar hugmyndir. Rætt verður um tímasetningar, leikmynd, búninga og fl. og fl. sem hugsanlega brennur á okkur.

­Í vetur mun Halaleikhópurinn setja upp Gaukshreiðrið (One Flew Over the Cuckoo's Nest) eftir Dale Wasserman byggt á skáldsögu Ken Kesey (1962) , í þýðingu Sonju B. Jónsdóttur. Við erum búin að ráða  Guðjón Sigvaldason leikstjóra til að leikstýra okkur. Æfingar hefjast í byrjun nóvember og stefnt er að frumsýningu í lok janúar. Tekið verður frí í desember og hafist handa strax eftir áramót. 

Gaukshreiðrið endurspeglar á óviðjafnanlegan hátt þann uppreisnaranda sem ríkti í vestrænum heimi á seinni helmingi sjöunda áratugar síðustu aldar. Það gerist á ríkisreknu geðsjúkrahúsi þar sem einn vistmaður æsir sjúklinga á stofnuninni með sér í uppreisn gegn því sem hann telur vera miskunnarlaust harðstjórnarkerfi. Kerfið bregst ókvæða við og ekkert er látið ógert til að brjóta uppreisnina á bak aftur, hún fær vægast sagt óvæntan og óhugnanlegan endi og verður upphafsmanni hennar dýrkeypt.

Það fjallar um eðli geðveikrahæla, stöðu sjúklinganna innan þeirra og hvað felist raunverulega í geðveiki. Kannski á sumt við enn þann dag í dag. Í verkinu er velt upp spurningunni hvort raunveruleg andleg heilun fáist með því að húka inni á geðveikrahæli fjarri venjulegu lífi og láta kerfið ákveða hvað komi sjúklingunum best.

Gaukshreiðrið er í senn ógnvekjandi, grátbroslegt og sprenghlægilegt og þetta samspil er fyrst og fremst ástæðan fyrir hinum feikimiklu vinsældum þessa heimsfræga verks.

Allar upplýsingar um Halaleikhópinn má finna á www.halaleikhopurinn.is

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hva, þeir segja þarna í restina að hópurinn sé opinn öllum áhugasömum.

Bragi Þór Valsson (IP-tala skráð) 5.9.2007 kl. 00:07

2 Smámynd: Ása Hildur Guðjónsdóttir

Já einmitt enda er hann það. Málið er að þetta er blandaður hópur en ekki bara fyrir fatlaða eins og margir lásu út úr fréttinni.

Endilega kíkiði á þankaroksfundinn :-)

Ása Hildur Guðjónsdóttir, 5.9.2007 kl. 09:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband