28.9.2007 | 00:40
10 dagar og sorg
Tíminn líður hratt og ekki svo sem mikið gert í undirbúningsmálum í dag. Þó kom í pósti skírteini enn eitt til að hafa með sér frá tryggingafélaginu. Já og hún Gugga mín og systir hennar hún Gyða eru svo æðislega að þær ætla að útbúa fyrir mig skriflegar leiðbeiningar um hvernig ég á að fara gegnum Heatrow frá A - Ö. Mikið hvað maður á góða vini og hjálpsama. Bjögga mín skrifað fyrir mig lista yfir nauðsynlega hluti til að taka með sér. Svo sem stuðningssokkabuxur ;-), nefdropa tvær tegundir, blautþurrkur og tissjú og fleira og fleira. Mikið sem þessar elskur reynast mér vel og hafa gert í 14 ár. Veit ekki hvar ég væri stödd ef þær hefðu ekki komið inn í líf mitt. Allir leggjast á eitt um koma mér klakklaust til afríku ;-)
Í dag er samt mikil sorg í hjarta mínu því haldreipið mitt hún Gugga er að hætta sem forstöðumaður í Vin þar sem ég hef eytt löngum stundum gegnum árin. Ég fagna því að hún skuli stíga þetta skref fyrir sig persónulega en um leið syrgi ég það að við skulum ekki njóta starfskrafta hennar lengur. En alltaf kemur maður í manns stað en skarð hennar verður ekki fyllt. Ég hamast við að reyna að horfa á nýju tækifærin sem verða til við þessar breytingar en í dag ætla ég að syrgja og gleðjast með henni.
Þessi merka starfsemi í Vin er ákaflega viðkvæm en þó sterk í senn. Starfsmannabreytingar eru ávallt erfiðar fyrir gesti hússins meðan á þeim stendur. En alltaf opnast nýir og nýir gluggar með nýjum tækifærum.
Við Gugga erum búnar að starfa mikið saman við alls kyns verkefni og ferðast mikið saman líka. Hún er einstök manneskja og mannvinur. Ég á henni mikið að þakka, mörg bataskrefin hef ég tekið með hennar hjálp. Ég veit að við eigum eftir að hittast aftur og eflaust plotta eitthvað einhversstaðar. Og ekki ætlar hún heldur að klippa alveg á naflastrenginn og mun halda tengslum við Vin og Rauða krossinn.
Annars fór dagurinn í dag að mestu í Halaleikhópinn sem var 15 ára í dag (gær). Undirbúningur undir mikla hátíð er á fullu, afrakstur námskeiðsins að springa út um allar glufur. Ný ljós og hljóðkerfi lýsa og hljóma um alla kima Halaleikhússins og mikið hlegið og skipulagt.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.