Gaukshreiðrið Ertu Cockoo og vilt vera með í spennandi verkefni ?

Það hefur vonandi ekki farið fram hjá neinum að mikið líf og fjör hefur verið hjá Halaleikhópnum allt síðasta ár, vegna afmælisársins.

Nú eru kaflaskil, á næstu dögum hefjum við æfingar á GaukshreiðrinuOne Flew Over the Cockoo's Nest", eftir Dale Wasserman byggt á skáldsögu Ken Kesey (1962) í þýðingu Sonju B. Jónsdóttur.

Um leikritið:

Gaukshreiðrið endurspeglar á óviðjafnanlegan hátt þann uppreisnaranda, sem ríkti í vestrænum heimi á seinni helmingi sjöunda áratugar síðustu aldar. Það gerist á ríkisreknu geðsjúkrahúsi, þar sem einn vistmaður æsir sjúklinga á stofnuninni með sér í uppreisn gegn því, sem hann telur vera miskunnarlaust harðstjórnarkerfi. Kerfið bregst ókvæða við og ekkert er látið ógert til að brjóta uppreisnina á bak aftur, hún fær vægast sagt óvæntan og óhugnanlegan endi og verður upphafsmanni hennar dýrkeypt.

Það fjallar um eðli geðveikrahæla, stöðu sjúklinganna innan þeirra og hvað felist raunverulega í geðveiki. Kannski á sumt við, enn þann dag í dag. Í verkinu er velt upp spurningunni, hvort raunveruleg andleg heilun fáist með því að húka inni á geðveikrahæli fjarri venjulegu lífi og láta kerfið ákveða, hvað komi sjúklingunum best.

Gaukshreiðrið er í senn ógnvekjandi, grátbroslegt og sprenghlægilegt og þetta samspil er fyrst og fremst ástæðan fyrir hinum feikimiklu vinsældum, þessa heimsfræga verks.

Leikstjóri:

Við höfum ráðið Guðjón Sigvaldason til að leikstýra okkur. Hann er okkur að góðu kunnur leikstýrði hjá okkur Fílamanninum 2004 og Kirsuberjagarðinum 2005, auk þess að hafa haldið tvö leiklistarnámskeið fyrir okkur 2003 og 2004. Athygli er vakin á að ýtarleg umsögn er um hann og ferilskrá á vef Halaleikhópsins. http://www.halaleikhopurinn.is/gaukshreidrid.htm. Guðjón mun koma á félagsfundinn fimmtudaginn 8. nóv. nk. kl. 20.00 og kynna verkið og svara þeim spurningum, sem upp koma.

Annað:

Áætlað er að leikarar í verkinu verða 16 - 20  auk allra annarra, sem  koma að uppsetningu á leikritinu. Æfingar hefjast eins og áður er komið fram, næstu daga. Ætlunin er að æfa í nóvember, taka svo frí desember og hefjast handa svo strax eftir áramót. Við stefnum að frumsýningu kringum mánaðarmótin jan. - feb. 2008

Þeir sem hafa áhuga á að taka þátt í uppsetningu verksins, eru hjartanlega velkomnir og bendum við þeim á að hafa samband við okkur í gegnum netfangið halaleikhopurinn@halaleikhopurinn.is eða hringja í síma 692-3630. Nú eða bara mæta á félagsfundinn á fimmtudaginn.

Nýjir félagar eru hjartanlega velkomnir. Mikinn mannskap vantar í hin ýmsu störf svo sem: Leikara, ljósamenn, hljóðmenn, tæknimenn, leikmyndasmiði, málara, sminkur, hárgreiðslufólk, saumakonur, búningahönnuði og hönnuði af öllu tagi, hugmyndaríkt fólk, framkvæmdastjóra, miðasölufólk, ýmis eldhúsverk þarf að vinna og ræstitæknar eru mikilvægir, einhvern til að hughreysta og knúsa þegar mikið gengur á, aðstoðarfólk af ýmsu tagi, auglýsinga hönnuð og framleiðanda, fólk sem getur hjálpað við styrkumsóknir, fjáröflunarfólk, leikskrárhönnuði, bakara, einhver þarf að vinna í sjoppunni og sjá um hana, fólk til að hengja upp auglýsingar, einhvern sem brosir, upplýsingafulltrúa, tölvumann, einhvern til að sjá um heimasíðuna og er hér bara fátt eitt upptalið. Við þurfum semsagt fólk, með mismunandi hæfileika.

Allir geta gert eitthvað, að deila hæfileikum sínum með þessum hóp, er tóm gleðiuppspretta, bæði fyrir þann sem veitir og þiggur og deilir því með öðrum.

Endilega áframsendið þetta á þá, sem þið haldið að séu áhugasamir um að taka þátt í uppfærslunni á einn eða annan hátt.

Allar nánari upplýsingar um Halaleikhópinn er að finna á http://www.halaleikhopurinn.is/


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband