Stundum er maður stórskrítinn en er það nema von

Ég bý við þær skrítnu aðstæður að eiga tvær fjölskyldur en samt bara eina. Veit þetta hljómar flókið enda er það það. Ég var fimm ár hjá fósturfjölskyldu eða öll unglingsárin. Á þessum árum var ég reiður og  ákafur unglingur. Skildi meira og minna við mína blóðfjölskyldu og tók mér bólfestu í annarri norður í landi. Fimm árum seinn skildi ég svo við hana og fór til baka í upprunafjölskylduna.

Ástæðurnar sem lágu að baki þessu ferli öllu eru margar og flóknar og ljóst er að ég kem sködduð frá þeim báðum, en jafnframt sterkari. Allt mitt þroskaferli var flókið og langt. Aðstæðurnar í báðum fjölskyldunum voru að mörgu leiti mjög góðar og bý ég vel að því en líka var í báðum fjölskyldunum mínum stórir vankantar sem fóru mjög illa með mig.

Mörgum árum seinna og nokkrum áföllum eyddi ég fimm árum á geðdeild til að vinna úr þessu og gera málin upp fyrir mér. Til þess að það tækist þurfti ég að loka á ákveðna hluti og velja fyrirgefninguna og lífið sjálft. Þetta gekk vel og ég tel mig heppna í dag að eiga tvær fjölskyldur og elska þær báðar út og inn, bara eins og þær eru.

Norðurfjölskylduna hef ég lítið sem ekkert samband haft við síðustu árin. Af ýmsum ástæðum. Þar til fyrir tveimur árum þegar afi minn í fósturfjölskyldunni dó og ég og önnur stúlka sem líka var í sveitinni með mér fórum í jarðaförina sem við sáum auglýsta í blöðunum. Það var tilfinningaþrungið og gott.

Síðan liðu tvö ár og nánast engin samskipti hafa verið, nú lést amman og nú var hringt í mig og mér tilkynnt það. Það þótti okkur vænt um. En það tók mig marga daga að átta mig á hvers vegna mér hefur verið svona órótt síðan. Ég er búin að vera ómöguleg á sál og líkama. Merkilegt hvernig það tengist sterkt inn á tilfinningalífið mitt. Ég hafði góðar afsakanir fyrir að fara ekki norður, en í fyrradag varð mér það ljóst að það var þetta sem lá á mér. Sumt er ekki orðið í friði í sál minni síðan á þessum árum.

Í dag fórum við báðar norður í jarðaförina og það var gott. Gott að kveðja ömmu og hitta fjölskylduna. Náði að tala við flesta og leið vel. Vonandi fer að koma ró í sál mína.

Ég vil taka það fram að ég er ekki að gagnrýna fjölskyldur mínar þær eru frábærar báðar. Af þeim lærði ég margt. Í dag er ég mjög hæfileikarík og það er þeim að þakka eins ólíkar og þær eru. Ég gat nýtt mér það besta frá báðum. Allt sem ég kann er þeim að þakka. Svo er það mitt að vinna úr mínu tilfinningalífi. Til þess hef ég öll verkfærin en síðasta vika gerði mér ljóst að ég þarf að grafa soldið meira út.

Merkilegt að geta í dag farið norður á Blönduós, verið þar heillengi og komið heim aftur á um 12 tímum. Þegar ég bjó fyrir norðan tók það allan daginn að fara suður.

Ragna Guðrún takk fyrir hjálpina.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóna Á. Gísladóttir

 Sumt tekur ævina alla að vinna úr. Þú ert greinilega staðráðin í að eiga eins gott líf og hægt er. Ég tek ofan fyrir þér

Jóna Á. Gísladóttir, 5.12.2007 kl. 01:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband