Jólastuð

Hekla kom í dag eftir skóla til að klára aðventukransinn sem hafði verið hent út á svalir í síðustu viku. Jú í alvöru þau gerðu það Hekla og afi hennar. Meðan ég vafði kransinn með greni voru einhverjar lýs að skríða um borðið og þau gersamlega flippuðu út. Kransinn lifði af óveðrið og engar pöddur hafa sést. Settum á hann kertin og englana. Eitthvað voru slaufurnar í kössunum orðnar slappar svo ég mun fjárfesta í nýjum næstu daga. Allavega er nú komin grenilykt í húsið. Afgangurinn af greninu var klipptur niður og settur í kringum Betlehemshyskið eins og Guðmundur mágur kallar fína fjárhúsið mitt með styttunum af jólaguðspjallspersónunum. Allt orðið voða fínt.

Við ömmsur bökuðum svo tvær sortir eins og hendi væri veifað við mikinn fögnuð karlpeningsins. Já ég held bara þær verði fleiri í ár. Allt stefnir í að við mæðgur föndrum saman þó dóttirin sé með 100 þumalputta að eigin sögn. Við Hekla ættum að geta stýrt henni í rétta átt með alla þessa putta.

Á sunnudaginn fórum við og hittum alla tengdafjölskylduna í árlega smáköku og súkkulaðiboði hjá Ollu í nýja fína húsinu þeirra. Takk fyrir okkur. Þar er sko myndarskapur við baksturinn ég ætla nú ekki að reyna að keppa við hann. Lagðar voru línurnar fyrir hið árlega jólaboð á jóladag. Nú á að stokka upp, nei ekki breyta matseðlinum. En nú hefur orðið smá breyting á fjölskyldunni og með nýjum meðlimum koma nýir siðir. Mér skilst að við eigum að fara í hæfileikapróf bæði í Actionery og Karokee. Ég á kannski séns í leiklistinni en líst illa á hitt. Söngur er hæfileiki sem ég er algerlega gersneidd.

Á morgun fer ég svo í aðventuferð með Víðsýn í Mosó, ýmislegt skoðað og brallað meðal annars verður höggvið jólatré. Gaman gaman.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóna Á. Gísladóttir

Alltaf jafn brjálað að gera hjá þér  Greinilegt jólaskap á þínu heimili

Jóna Á. Gísladóttir, 5.12.2007 kl. 01:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband