11.12.2007 | 00:13
Ég elska karakterinn í veðrinu á Íslandi
Úti næðir óveðrið og ég sit hér við tölvuna og dilla mér af skemmtun. Ekki það að ég hafi gaman af fjúkandi þökum og slysum á fólki. Nei langt því frá. En ég elska þennan karaker í veðrinu hér á Íslandi þar sem allt fer af stað. Vindstyrkurinn verður hærri og hærri og vatnið gusast í allar áttir. Rigningin er þversum og stundum uppí loft líka. Allt annað en þetta karakterslausa veður sem ríkir víða annars staðar í heiminum. Ekki finnst mér verra að það skuli skjálfa hressilega uppá hálendi líka. Fylgist grannt með vedur.is og þessu fínu kortum sem nýjasti bloggvinur minn hefur verið að dunda sér við hann Kjartan Pétur Endilega kíkið á þau. Áhugaverðar pælingar í gangi.
Heklan mín á alltaf mjög erfitt með að finna á sig jólaföt. Kröfuhörð stúlkan sú og með sérlundaðan fatasmekk eins og ég og mamma hennar. Þær voru búnar að fara í nokkra leiðangra án árangurs svo þær ræstu stórskotasveitina út, eins og þær kalla mig !!! Í Smárann var haldið eftir kvöldmat og farið búð úr búð. Jú þetta er orðið ansi flókið þegar maður er 10 ára. Hún vildi kjól helst mjög fínan. Ekki málið, en í barnafatadeildunum voru allir kjólar of litlir, barnalegir eða hreinlega ljótir. Ekki flott tíska í gangi núna. Sérverslanir með barnaföt eru bara með föt upp í 140. Mín þarf að minnsta kosti 164 ef ekki stærra. Hefur lengst óhuggulega í haust. Þá var farið í búðir fyrir ungar konur..... Þar pössuðu kjólarnir nema ..... það er gert ráð fyrir stórum brjóstum í þá flesta og þeir eru yfirleitt mjög flegnir ef ekki að framan þá aftan. Við sáum flott pils í einni búð og flottan jakka í annari en málið var að það passaði bara ekki saman. Eftir miklar pælingar fundum við gullkjól í Topshop sem við urðum allar ásáttar með. Og leggings í Hagkaup, þá vantar bara ermar..... En vitum af þeim í hinu Mollinu. Nálgumst þær bara seinna.
Veðrið var bilað þegar ég keyrði þær heim um 9 leitið, mér leist nú ekkert á það á köflum en allt hafðist stórslysalaust. Svínaði víst samt fyrir bíl á Reykjanesbrautinni sá hann bara ekki og bið hann hér með afsökunar. Það skemmtileg við þetta var að í fyrra þá var líka óveður einn dag í des. og þá fórum við líka í Smárann í sömu erindagjörðum :-) Ekki það að við hlustum ekki á veðurspár við erum bara soldið fyrir að taka áhættu og versla á kvöldin þegar rólegt er í mollunum.
Athugasemdir
Hér á Sléttuveginum er allt vitlaust í augnablikinu. Var að senda soninn út á svalir að taka til en húsgögnin sem þar voru vel skorðuð út í horn höfðu tekið polkaspor eftir svölunum og gaskútur rúllað af stað. Hér inn eru allir með hellur fyrir eyrunum.
Ása Hildur Guðjónsdóttir, 11.12.2007 kl. 00:40
Hér er allt honkídorí.
Ásdís Sigurðardóttir, 11.12.2007 kl. 22:50
Ég breytist í sannkallaða grumpy old lady í svona veðurofsa, þykist ekki vera það öðrum stundum auðvitað. Hárin á mér rísa og þau leggjast ekki aftur. Nánustu ættingjar sem mæta mér í þessu ástandi þekkja mig ekki og það er vel.
Marta B Helgadóttir, 13.12.2007 kl. 23:25
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.