26.2.2008 | 16:17
Frelsi á Fríkirkjuvegi 11
Var að hugsa þegar ég sofnaði í gær um þennan æskulýðsklúbb sem ég var í á Fríkirkjuvegi 11 hjá Katli Larsen. Held þetta hafi verið árið sem ég fermdist eða árið áður, eða kannski bæði, minnið frá þessum árum er ekki gott. Enda átti ég erfiða tíma þá sem urðu til þess að ég var sett í fóstur norður í land.
Ég man ekkert hverjir voru með mér í klúbbnum sem var nokkuð stór og með krökkum víðsvegar af höfuðborgarsvæðinu. Man samt eftir sætum strákum úr Hafnarfirði :-)
Við brölluðum ýmislegt og þetta stóra mikla hús með öllum sínum skúmaskotum var nýtt til fulls. Vorum í alls kyns leikjum og uppbyggilegu starfi. Er hrædd um að börn í dag fái ekki það frelsi sem við fengum í þessu húsi til að týnast inní kompu ef hentaði, fara uppí rjáfur og ofna í kjallara. Ketill var ekkert að stressa sig á smámunum.
Mér er mjög minnisstæð ferð sem við fórum upp að Lækjarbotnum með rútu. Ketill lét okkur labba yfir fjall þar sem við fundum skála sem við gistum í og hann sagði okkur svo mergjaðar draugasögur að enginn svaf heilan svefn lengi á eftir. Hann lék öll hljóð og vindurinn gnauðaði. Við kúrðum okkur saman í einni kös í gamaldags svefnpokum með kakó í hitabrúsa.
Daginn eftir sendi hann okkur í hina ýmsu leiðangra og við lékum í bíómynd þar sem við vorum krakkar sem voru að koma úr skólaferðalagi með flugvél sem brotlenti. Við fundum hálfhruninn skála með kojum í og lékum slasaða og ruglaða ferðamenn. Ötuðum okkur drullu fyrir blóð. Hituðum vatn í niðursuðudós yfir opnum eldi og vorum í því sem í dag myndi kallast Surfival leikur. Þetta tók Ketill allt uppá 8 mm kvikmyndavél og sýndi á æskulýðsþingi á norðurlöndunum.
Eða þannig er minningin um frjálsa leiki og hvatningu. Ketill tók líka mikið að slide myndum af okkur og sýndi okkur svo. Við höfðum mjög gaman af þessu.
Mörgum mörgum árum seinna rúmlega 20 líklega hitti ég Ketil aftur, eða hann fann mig þar sem ég var að vinna í Prentsmiðju Árna Vald. Hann kom og var að láta prenta eitthvað fyrir sig og heyrði hláturinn í mér bak við þil og þekkti hann aftur. Mikið þótti mér vænt um það. Hann kvaðst hafa glatað myndinni góðu.
Æ það er svo gott að eiga góðar minningar
Athugasemdir
Sæl, ég hef aðeins kynnst Katli, hann kátur og kyndugur karl, og eins og þú segir, ekkert að stressa sig á hlutunu. Það er bara gaman að svona mönnum sem fara ekki troðnar slóðir.
Greta Björg Úlfsdóttir, 27.2.2008 kl. 18:26
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.