Gleðilegt sumar - Vetrarannáll

Veturinn var nokkur sérstæður þetta árið. Hófst og endaði á mjög svo óvæntum utanlandsferðum. Á fyrsta vetrardag var ég stödd í Greyton í s. afríku í boði bróðir míns og mágs. Þar dvaldi ég í góðu yfirlæti í rúmar 3 vikur og lenti í hinum ýmsu ævintýrum. Sigraðist á ýmsum djöflum og kom heim sterkari en fyrr. Hélt uppá 50 ára afmælið mitt með Villa bróðir og þremur norskum valkyrjum í safaríferð þar sem ég komst óvænt í snertingu við litla hjörð af Buffalódýrum sem ég vissi þá ekki að væru neitt hættulegir og fór að klappa þeim við skelfingu annarra viðstaddra. Meira má lesa um ferðina í eldri bloggfærslum frá okt. 2007. Og myndir frá henni eru í pikasa myndunum.

Þegar heim kom sökkti ég mér í leiklistina sem aldrei fyrr. Æfingar á Gaukshreiðrinu hófust í nóvember og alls kyns undirbúningur stóð yfir. Seint gekk að manna þetta stóra verkefni og ýmsar uppákomur óvæntar urðu á vegi okkar í ferlinu. Þannig að óvenju mikil vinna lenti á mér þó ég hafi verið að vinna með frábæru fólki. En þetta var bara gaman og mjög lærdómsríkt.

Guðmundur mágur kom heim í nóv. líka og ég átti góðar stundir með honum sem var gott.

Þegar ég kom frá Afríkunni var minn heittelskaði orðinn frægur uppistandari og allt í einu orðin tæknimaður Hjólastólasveitarinnar sem var stofnuð með pompi og prakt og troðið upp víða. Meðal annars norður til Akureyrar, þar sem þau tróðu upp í 4 grunnskólum sama morguninn og transporteruðum á milli í eðalhjólastólabíl. Skemmtilegur hópur sem er sprottinn uppúr því verkefni og á eflaust eftir að setja mark á sumarið hjá mér.

Ég missti mig í snemmbúnum jólaskreytingum þetta árið og þótti notalegt að nota þá frá frídaga sem gáfust við jóladútl með barnabarninu og fjölskyldunni. Sonurinn var atvinnulaus framan af vetri og átti í ýmsu basli við vinnuleitina en hún bar árangur á endanum og er hann ánægður þar núna og farinn að taka lit strax í útivinnunni. Dóttirin fékk veglega stöðuhækkun í vetur og ánægð í sínu starfi. Tengdasonurinn ákvað hins vegar í lok vetrar að yfirgefa skútuna við mikinn söknuð. Prinsessan hefur stækkað mikil ósköp er orðin 153 cm á hæð. Hún er búin að æfa dans í allan vetur og við keyrt henni og sótt og því haft hana eftir skóla tvo daga í viku og það hafa sko verið miklar gæðastundir. Hún hefur líka lesið þvílík ósköp af bókum af hinu ýmsa tagi að manni stóð nú ekki á sama á tímabili. Hún skilar alltaf fullu húsi stiga úr skólaprófunum og stendur sig mjög vel. Er ekki enn búin að læra að vera óþekk. En er sönn prinsessa.

Í vetur hef ég starfað í hinu ýmsa nefndarstarfi á vegum Sjálfsbjargar og það tekið sinn tíma en bara verið gaman að vinna að þeim málefnum með góðu fólki. Sjálfboðastarfið hjá Rauða krossinum hefur líka fengið sinn tíma en ég er þar í kynningarhóp sem fer inn á geðdeildir og kynnir Vin. Ég hef sótt Vin jafn og þétt í vetur og tekið þar þátt í ýmsu. Heilsuhópurinn stendur þar uppúr þar fær maður að fókusera vikulega. Nú svo hefur starfið í Ferðafélaginu Víðsýn líka verið gjöfult. Fórum í aðventuferð í Mósó í desember. Þar höfum við líka verið að skipuleggja ferðir sumarsins 2008 og óvænt aftur er ég á leið til Danmerkur í sumarhús í Gilleleje með þeim í lok maí, á Sólheima næsta haust og sitthvað fleira. Mjög gefandi starf sem þar fer fram og hefur byggt mig mikið upp.

Ég hef verið í sjúkraþjálfun meira og minna tvisvar í viku í allan vetur og ýmsar aðferðir prófaðar á mér og einhvern veginn hefur Ágústi þjálfara tekist að halda skrokknum mínum einhvern veginn gangandi, þó ég hafi ekki verið samvinnuþýð á stundum. Og alveg gleymt að hugsa um heilsuna sem skildi sökum anna. Þarf að fókusera betur á það. Baráttan við Tryggingastofnum er alltaf hin sama, ömurlegt kerfi þar sem ávallt þarf að vera að standa í veseni út af engu. Árangurinn oftast lítill líka. Þó urðu þau merku tímamót í vetur að afnuminn var frádráttur vegna tekna maka. Það var mikið baráttumál hjá mér og var það atriði sem ég hef alltaf verið ósáttust við. Fannst ég missa sjálfstæði sem einstaklingur við þá skerðingu. Er sem sagt aftur orðinn sjálfstæður einstaklingur eftir 15 ára ósjálfstæði og fagna mikið.

Óvænt vegna ferðar í jarðaför norður í land í desember þurfti ég að endurskoða hluti úr fortíðinni sem ég hef ekki viljað taka mikið á. Hver veit hvað kemur uppúr því.

Janúar til apríl var svo undirlagður af vinnu við Gaukshreiðrið. Sýningin tókst mjög vel og fengum við til liðs við okkur nokkra nýja starfskrafta. Mórallinn í hópnum var mjög góður og gengu sýningar mjög vel. Ýmislegt óvænt kom uppá og alltaf tókst að redda málum oft úr óvæntustu áttum. Ég var aðstoðarleikstjóri, sýningarstóri, sá um miðapantanir, búninga, heimasíðu ofl. ofl. Svo nóg var af störfum. Við vorum líka að setja upp og vígja mikinn ljósabúnað og tölvuljósaborð sem var keypt í haust, mikil vinna og gleði var í kringum það. Þá tóku stjórnarstörf í Halaleikhópnum mikinn tíma enda mikið umleikis í vetur. Minn heittelskaði var líka að leika í Gaukshreiðrinu auk uppistandsins með Hjólastólasveitinni þannig að það var svo sem ekki nema von að maður segi að lífið í vetur hafi verið leiklist.

Sýningar urðu 11 og þykir það bara gott í allri samkeppninni hér á höfuðborgarsvæðinu. Síðan þeim lauk hefur verið nóg að gera að vinna úr verkefnabunkum sem hafa safnast upp í vetur. Og líka gefist tími til að dytta að listinni. Fór aðeins á flug í skartgripunum og missti mig í prjónaskap. Er nú með á prjónunum mikla hauskúpulopapeysu á prinsinn.

Vorboðinn óvænti var svo að dóttirin bauð mér í mæðgnaferð til Köben sem við komum úr um síðustu helgi. Prinsessan var með í för og skemmtum við okkur mjög vel. Misstum okkur í búðunum þrátt fyrir ömurlega stöðu gengisins, flökkuðum um allt í lestum eins og innfæddar, fórum í Tívolíið og Dýragarðinn í sól. Heimsóttum Sigrúnu systir og nutum þess að borða úti og vera heimsborgarar. Takk fyrir Sigrún mín.

Ekki má gleyma öllum bókalestrinum sem tók óvæntar stefnur með bókaklúbbnum hjá Mörtu smörtu. Já veturinn var gjöfull og góður. Og ég lít björtum og spenntum augum til sumarsins. Ýmislegt í bígerð og eflaust á meira að koma uppí mínar ötulu hendur.

Gleðilegt sumar og takk fyrir veturinn.

Í dag á Villi bróðir afmæli til hamingju með daginn elsku besti bróðir.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Marta B Helgadóttir

Gleðilegt sumar Ása og takk fyrir ánægjuleg bloggsamskipti í vetur 

Marta B Helgadóttir, 24.4.2008 kl. 12:05

2 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Gleðilegt sumar Ása Hildur og takk fyrir samskiptin í vetur.

Ágúst H Bjarnason, 24.4.2008 kl. 12:18

3 Smámynd: Helga Auðunsdóttir

Gleðilegt sumar og takk fyrir veturinn

Helga Auðunsdóttir, 24.4.2008 kl. 12:51

4 Smámynd: arnar valgeirsson

jamm, viðburðarríkur vetur. heldur betur. gleðilegt sumar og þú verður túlkur....

arnar valgeirsson, 24.4.2008 kl. 12:58

5 identicon

Gleðilegt sumar og takk fyrir veturinn.  Vonandi eigið þið fjölskyldan góðan dag í dag

Ragnheiður Karítas (IP-tala skráð) 24.4.2008 kl. 13:11

6 Smámynd: Kjartan Pétur Sigurðsson

Gleðilegt sumar Ása. Greinilega viðburðarík ferð til Afríku hjá þér.

Kjartan Pétur Sigurðsson, 24.4.2008 kl. 15:54

7 Smámynd: Vilborg Valgarðsdóttir

Gleðilegt sumar Ása, það hefur greinilega verið nóg að gera hjá þér í vetur!

Vilborg Valgarðsdóttir, 24.4.2008 kl. 16:18

8 Smámynd: Unnur R. H.

Gleðilegt sumar Ása mín og takk fyrir bloggvetur

Unnur R. H., 25.4.2008 kl. 08:26

9 Smámynd: Svava frá Strandbergi

Gleðilegt sumar Ása Hildur mín. Hlakka til að ferðast með þér í maí. Já og gleðilegt sumar.

Svava frá Strandbergi , 26.4.2008 kl. 00:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband