27.4.2008 | 18:08
Undir rauðri súð
Ég fékk smá fortíðar flassback í gærkvöldi. Fór að hugsa um árin sem ég átti undir eldrauðri súð og þakglugga. Veggirnir veggfóðraðir með eldrauðu veggfóðri með frönsku mynstri. Súðarskápur inn af herbergina þar sem leynifélagið átti aðsetur. Nei kannski var það starfandi meðan hvíta tímabilið í súðarherberginu var og net strengt á vegg og setið á kistu, netakúlur og rauðvínsflöskur í bastkörfu aðal stássið fyrir utan skattholið góða með speglinum undir lokinu.
Já ég fór í gærkvöldi í Borgarleikhúsið og sá Jesús Krist Súperstar með mínum heittelskaða og vinapari. Ég skemmti mér stórvel og minningarnar hrönnuðust upp. Fyrsta stóra hljómplatan sem ég eignaðist var einmitt Jesús Kristur Súperstar keypt í plötubúð sem var í gamla moggahúsinu í Aðalstræti og Karnabær í kjallaranum. Sú plata var spiluð ansi mikið en þó ekki alveg í gegn því hún er til hér enn þó nú eigi ég þetta fyrir löngu á CD líka. Þetta voru skemmtilegir tímar undir súðinni ég átti á þessum tíma ferðaplötuspilara sem var trékassi með loki og handfangi, svona líkt og hattaskja. Hann entist mér ansi lengi frameftir eða að mig minnir allt til 1977 þegar minn heittelskaði kom inn í líf mitt með fullkomnari græjur.
Fyrsta litla hljómplatan var aftur á móti með Flosa Ólafssyni hana keyptum við Bíbí vinkona mín á þeim árum saman eftir að hafa upplifað mikil ævintýri á Laugarvatni um verslunarmannahelgina þar sem hann söng Það er svo geggjað að geta hneggjað. Sú plata glataðist og því miður líka vinátta okkar Bíbí, hef ekki heyrt af henni árum saman. Kannski maður fari að gera eitthvað í því.
En aftur að sýningunni sem var stórgóð í marga staði þó var aðalatriðið tónlistin alls ekki nógu vönduð að mínu mati, en eins og allir vita hef ég ekkert vit á músík svo það er bara þannig. En sviðsetningin heillaði mig og ansi mörg skemmtileg element í sýningunni. Búningarnir heilluðu heldur ekki, mér fannst þeir sundurlausir sem er eitthvað sem ég vil ekki sjá í atvinnuleikhúsi. En kvöldið var dásamlegt og flassbackið gott.
Á föstudagskvöldið dró ég sömu vini með mér í Möguleikhúsið að sjá 39 1/2 viku hjá Hugleik. Ég verð að segja það að það er ein sú albesta sýning sem ég hef séð í vetur. Ég kom mjög heilluð út. Þau eru að gera fullt af fínum hlutum hjá Hugleik og Hrefna hefur þarna skilað ansi góðu verki. Hipp hipp og húrra fyrir Hugleik.
Takk Stebba og Labbi fyrir að koma mér í leikhús tvö kvöld í röð.
Fór líka á aðalfund hjá Sjálfsbjörg á höfuðborgarsvæðinu um helgina þar sem allt gekk eins og í sögu og reikningarnir stórglæsilegir og lofa góðu fyrir framtíð félagsins.
Fórum svo í 6 ára afmæli hjá sætasta strák á íslandi honum Gabríel. Fengum þar hina fínustu veislu og hittum nýja kærastann hennar Lovísu. Vonandi gengur þeim allt í haginn. Hittum svo part af tengdafjölskyldunni í dag, svo ég held bara helgin hafi verið notadrjúg til hittinga.
Framundan er svo ýmislegt í vikunni, fundir og undirbúningur næsta ferðalags. En fyrst verður mætt á ný hjá sjúkraþjálfaranum í píningar og nú fær hann splunku nýja greiningu á færibandi að fást við, festumein í hásin, hlakka ekki til.
Athugasemdir
já, hugleikur stendur alltaf fyrir sínu. Ég kíkti aðeins á myndirnar hjá þér og sé að þú ert mikil skartgripamanneskja, eða er ekki svo?
Daníel Þórhallsson (IP-tala skráð) 28.4.2008 kl. 17:44
Mér finnst eins og ég muni eftir rauða veggfóðrinu...en kannski man ég bara eftir því af ljósmynd.
Sigrún Ósk Arnardóttir, 29.4.2008 kl. 22:30
Stofan hennar mömmu sálugu var einmitt með rauðu mynstruðu veggfóðri. Hún var mjög litaglöð kona.
Ég þarf líka að fara að mæta aftur hjá mínum sjúkraþjálfara. Skrokkurinn allur í skralli . Kölkun í baki og festumein í öllum liðum fyrir utan skaddaðan liðþófa í hægra hné. Ég er eiginlega löggilt fatlafól, samt get ég djöflast í garðinum á sumrin og tekið íbúðina í gegn frá A til Ö. Það er allt hægt ef áhuginn er fyrir hendi.
Svava frá Strandbergi , 1.5.2008 kl. 01:33
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.