3.6.2008 | 23:39
Súrrealískir dagar
Skrítið þetta líf. Nú í 13 mánuði hef ég verið að vinna að stóru verkefni og farið í ýmsar hæðir og lægðir í þeirri vinnu. Stundum hefur allt gengið glimrandi og stundum spennan verið að ganga frá manni. Ýmsar orrustur hafa verið háðar og ýmsu fagnað ákaft. Jú ég er að tala um Gaukshreiðrið mitt ástkæra sem annað kvöld miðvikudag kl. 20.00 er komið alla leið á Stóra svið Þjóðleikhússins. Eftir að fagnaðarlátunum linnti eftir að við sigruðum valið um Athyglisverðustu áhugaleiksýningu leikársins 2007 - 2008, hefur verið mikil vinna að æfa leikritið upp aftur eftir tveggja mánaða pásu, flytja leikmyndina, leikmuni og búninga niður í Þjóðleikhús. Skipulagning hefur verið gríðarleg og allir lagst á eitt að gera þetta stóra ævintýri að veruleika. Ótal hjálpfúsar hendur hafa lagst á eitt og hjálp komið úr ótrúlegustu áttum. Að vinna með þessu fólki öllu eru stórkostleg forréttindi sem ég er afar þakklát fyrir að njóta. Í kvöld þegar við vorum að æfa og verið var að smíða og mála og ég veit ekki hvað og ég sitjandi við leikstjóraborðið út í sal í Þjóðleikhúsinu við hlið Guðjóns leið mér hálf undarlega, næstu eins og ég væri lent inní bíómynd. Allar hendurnar sem komu að einni uppsetningu, allir með bros á vör. Vonandi næ ég að þakka þeim öllum á morgun og næstu daga.
En nú er tækifæri fyrir ykkur að kíkja á þetta kraftaverk sem Halaleikhópurinn er að setja á svið. Miðasala í Þjóðleikhúsinu. Sjáumst hress
Athugasemdir
Ég sat við símann klukkutímum saman en alltaf á tali í Þjóðleikhúsinu. Til hamingju með afrekið.
Svava frá Strandbergi , 5.6.2008 kl. 01:55
Já, það eru forréttindi að vera í þessu. Og frábært að fá að vinna að þessu með þér. þú ert frábær.
Daníel Þórhallsson (IP-tala skráð) 5.6.2008 kl. 17:59
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.