17.7.2008 | 01:16
nei nei ekki letihaugur í dag
Eftir sjúkraþjálfun í morgun fór ég að skutlast með Villa bróðir og Leonu, hann var að sækja um vegabréf, skutluðum okkur á kaffihús og nutum lífsins og samverunnar. Fór með þau heim og kom Villa í tölvusamband og fórum svo öll og hittum Lovísu og Gabríel. Þegar heim kom bauð dóttirin okkur í mat í þetta fína grænmetislasagna. Þær eru allar í hollustunni mæðgurnar og við njótum góðs af. Í kvöld fékk ég svo þetta óhugarlega dugnaðarkast. Réðst á pappírshlaðana og fullt af möppum hér á skrifstofunni og flokkaði í gríð og erg og kom á nýja og skilvirkari staði. Fann ýmislegt merkilegt og þó enn meira af tómu rusli og skutlaði 3 fullum ruslapokum út áðan af útprentum af ýmsu tagi og pappírsneplum af enn undarlegra tagi sem ég hef sankað síðasta árið sem hefur verið svo annasamt að orkan hefur ekki verið til staðar að klára dæmið.
Ekki er skrifstofan nú alveg orðin hrein og fín ennþá smá í viðbót sem þarf að fara betur í gegnum og koma á vefinn eða í viðeigandi skjalageymslur. Best þó var að dóttir mín góð hjálpaði mér við að tæka stóra sérsmíðaða tölvuborðið mitt og laga fæturnir á því sem voru orðnir eitthvað kiðfættir, til öryggis bættum við einum fæti við enda tölvugræjurnar hér með ansi mörg viðhöld. 3 snúrur og 2 millistykki gengu af þegar búið var að endurtengja allt saman. Smá heilabrot en skýringin fannst jú snúrurnar tilheyra skannanum sem við þorðum ekki að tengja eftir tölvuævintýrið í síðustu viku. Hann fer ekki í samband fyrr en Palli bróðir kemur heim í næstu viku.
Já bræðurnir eru allir á faraldsfæti þessa dagana. Nýjustu fréttir herma að Stebbi bróðir sem býr í Noregi sé á heimleið. Svo nú stefnir í að ég nái þeim öllum saman í sólahring. Tóm gleði með það þó það sé sólahringur sem ég ætlaði að gera ýmislegt annað spennandi á en nú þarf að forgangsraða sem aldrei fyrr og að sjálfsögðu verður það fjölskyldan fyrst og fremst.
Athugasemdir
Til hamingju með framkvæmdirnar á skrifstofunni og njóttu fjölskyldunnar til hins ýtrasta.
Svava frá Strandbergi , 17.7.2008 kl. 11:54
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.