29.1.2008 | 17:18
Fyrirmyndarhúsmóðir
Eftir heilabrotin í gær og hraðspólunina tók ég til hendinni hér heima í dag. Þvoði og þurrkaði tvær fullar vélar af þvotti, gekk frá því og meira að segja tók fram strauborðið og straujaði heil ósköp. Meira að segja eldhúsgardínurnar svo kannski fara jólin af fjúka niður næstu daga hver veit.
Eldaði svo mat og beið með heimalagaða máltíð þegar sonurinn kom heim úr vinnunni. Nú er ég líka búin að setja í uppþvottavélina, ganga frá eldhúsinu og fara út með ruslið.
Hef á milli verka talað ljúflega við minn heittelskaða eiginmann. Svo nú get ég samvikskubitslaust farið á leiklistaræfingu fram eftir nóttu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
29.1.2008 | 01:57
Sloppið fyrir horn....kannski
Prinsessan mín var hér í dag og kom með fulla tösku af fötum og efnum. Jú amma það er að koma öskudagur og ég er að hugsa um hvað þú getur saumað fyrir mig.......
Ég fékk hrikalegt hugarflog hugsandi um hvað ég er önnum kafin þessa dagana kvalin af samviskubiti yfir hve illa ég sinni fjölskyldunni. Tókst að halda andlitinu eins og ekkert var og sagði já hvað ertu að hugsa meðan ég fór yfir plan næstu daga á milljón til að reyna að finna smugu....
Æ bara Skógardís eða brúðarmær og dregur uppúr töskunni brúðameyjukjól vantar bara slör við hann. Hjúkkit hugsaði ég ekki mikið mál á blúndugardínur inní skáp.
En ég er samt frekar að hugsa um skógardísina.....
Uppúr töskunni dró hún svo hinar ýmsu flíkur í skógarlitum og klæddi sig í. Vantar bara meira blómamynstur og hlébarðaleggings sem fást í Söru.
Vá ég fylltist létti og hugsaði mamma hennar getur reddað leggingsinu og ég dró upp fullt af rósóttum slæðum í skógarlitunum úr slæðusafninu og hnýtti á hana hér og þar.
Hviss bang og kominn þessi fíni Skógardísarbúningur.
Nú er bara eftir að sjá hvort sú stutta eigi eftir að skipta um skoðun fram að Öskudegi.
Já talandi um þá stuttu þá fékk hún 12 bækur í jólagjöf og er búin að lesa þær allar og nokkrar í viðbót. Já allar í fullri lengd. Er nú búin að setja upp lestrarplan mánaðarins. Byrjaði á 1 Harry Potter og ætlar að taka alla syrpuna til upprifjunar, svo Eragon bækurnar og fleiri og fleiri taldi hún upp. Náði ekki nöfnunum var komin með svima þegar hún klikkti út með að í einni syrpunni væri ekki búið að þýða allar bækurnar á íslensku svo hún ætlaði að verða sér úti um ensk - íslenska orðabók og stauta sig gegnum þær.
Já ég hef fulla trú á að þessi stúlka klári þetta plan. Þegar ég var að diskutera við hana um hvort þetta væri nú ekki full mikið sagði hún Nei nei amma mín, ég kem til þín tvisvar í viku og leik við vinkonur mínar tvisvar í viku og fer til Svönu ömmu einu sinni í viku. Og svo er ég heima með fjölskyldunni um helgar.......
Hvað haldiði að þessi stúlka verði þegar hún verður stór?
Myndin er af þeim mæðgum Sigrún Ósk og Heklu frá í desember
Bloggar | Breytt s.d. kl. 02:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
27.1.2008 | 14:00
Dollaraseðlar vefslóð?
Í leiklist eru yfirleitt notaðir ljósritaðir penginseðlar og lengi vel átti ég slóð á síðu sem geymdi myndir af peningaseðlum frá ýmsum þjóðum.
Nú vantar mig síðuna en finn hvergi slóðina eða síðuna þrátt fyrir ítarlega leit. Ef einhver getur hjálpað mér að finna þetta væri það vel þegið. Það sem mig vantar núna er góðar myndir af dollaraseðlum báðum hliðum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
26.1.2008 | 10:57
Það er töff vera geðveikur
Þetta er fræg setning úr bransanum. Og hana má túlka á ýmsan hátt. Mér blöskrar þeir fordómar sem fólk lætur út úr sér, greinilega þurfum við geðsjúklingar að standa betur saman og tjá okkur enn einu sinni opinberlega til að útrýma þessum fordómum. Höfum gert það áður og getum gert það aftur.
Nú hef ég ekki staðfestingu á því hvort Ólafur var frá vegna geðsjúkdóms eða hvaða geðsjúkdóm þá. En geri ráð fyrir að það hafi komið fram einhversstaðar eftir því hvernig umræðan er. Eitt veit ég og þekki vel að þó fólk veikist á einhverjum tímapunkti á geði þá þýðir það ekki að menn séu veikir alla tíð eða að menn séu ekki nýtir þjóðfélagsþegnar þar með. Talið er að 25% landsmanna á hverjum tíma þjáist að einhverjum geðsjúkdóm. Og ekki er 25% þjóðarinnar þar með úr leik fyrir lífstíð.
Fólk veikist oft tímabundið af geðsjúkdómum eins og öllum öðrum sjúkdómum. Í dag eru til góð lyf og ýmsar tegundir meðferða við þeim. Sem betur fer þá ná flestir sér sem leita meðferðar eins og Ólafur gerði. 0.7% þeirra sem veikjast ná sér ekki og verða þá geðfatlaðir. 0.7% af 25% er aðeins mjög smátt brot af þjóðinni.Hættið þessum fordómum og kynnið ykkur málin almennilega, nægar upplýsingar eru á netinu og á heilsugæslustöðvum og út um allt. Innbyrðið þær og meðtakið stoppum fordómana.
Ég er sjálf ein að þessum geðsjúklingum eða fyrrverandi geðsjúklingum því ég hef ekki veikst síðan 2002 en þá útskrifaðist ég af geðdeild eftir 5 ára meðferð sem heldur enn þann dag í dag. Þannig að ég veit alveg um hvað ég er að tala. Ég er reyndar ekki vinnufær en það er sökum annarrar fötlunar sem ég bý við. Ég verð þó alltaf öðru hvoru vör við þessa fordóma í minn garð þar sem hnýtt er í að ég sé ekki virkur þjóðfélagsþegn. Ég er samt mjög virk í samfélaginu það vita þeir sem mig þekkja og þeir sem hafa fylgst með skrifum mínu sl. 3 ár í bloggheimum.
Eitt af mínum störfum í dag er að fara reglulega í kynningarheimsóknir á geðdeildir til að kynna Vin athvarf fyrir geðfatlaða fyrir þeim sjúklingum og starfsfólki sem þar er. Ég legg ýmislegt til samfélagsins í sjálfboðavinnu þó ekki skili ég miklu til skattakerfisins. Ég starfa með leikhóp þar sem fatlaðir og ófatlaðir eru vinna jöfnum höndum saman. Ég er í stjórnum og nefndum um ýmis mál sem tengjast málefnum fatlaðra og þeirra sem minna mega sín í þjóðfélaginu. Ég starfa með ferðafélagi geðfatlaðra Vina. og fl. og fl.
Ætla ekki að koma með CV hér en bið fólk að hugsa áður en það lætur út úr sér fáfræði á opinberum vettvangi. Í heimi fatlaðra og sjúkra er stéttaskipting mjög rík og þar eru geðsjúkdómar neðstir. Að maður sem er nýrisinn uppúr veikindum á geði komist í borgarstjórastöðu lýsir fordómaleysi þeirra sem þar réðu málum. Tökum okkur það sjónarmið til fyrirmyndar.
Ólafur: Aðalatriði að ég starfi af heilindum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
25.1.2008 | 09:41
Í tilefni dagsins
Nú er frost á Fróni,
frýs í æðum blóð.
Kveður kuldaljóð,
Kári´ í jötunmóð.
Yfir laxalóni
liggur klakaþil
hlær við hríðarbyl
hamragil.
Mararbára blá
brotnar þung og há
unnar steinum á
yggld og grett á brá.
Yfir aflatjóni
æðrast skipstjórinn.
Harmar hlutinn sinn
hásetinn.
Horfir á heyjaforðann
hryggur búandinn:
Minnkar stabbinn minn,
magnast harðindin.
Nú er hann enn að norðan,
næðir kuldaél
yfir móa´ og mel,
myrkt sem hel.
Bóndans býli á
björtum þeytir snjá.
Hjúin döpur hjá
honum sitja þá.
Hvítleit hingaskorðan
huggar manninn trautt:
Brátt er búrið autt,
búið snautt.
Þögull þorri heyrir
þetta harmakvein,
en gefur grið ei nein,
glíkur hörðum stein,
engri skepnu eirir,
alla fjær og nær
kuldaklónum slær
og kalt við hlær:
Bóndi minn, þitt bú
betur stunda þú.
Hugarhrelling sú
er hart þig þjakar nú,
þá mun hverfa´en fleiri
höpp þér falla í skaut.
Senn er sigruð þraut,
ég svíf á braut.
(Þorraþrællinn 1866) Þjóðlag. Ljóð: Kristján Jónsson
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
24.1.2008 | 13:05
Skömm og múgsefjun
Ég hef sjaldan orðið eins hissa og á leið heim úr sjúkraþjálfun í dag þegar ég hlustaði á múgöskur í útvarpinu í beinni útsendingu af borgarstjórnarfundi á Bylgjunni rúmlega 12 í dag.
Er fólk alveg að tapa sér, það hagaði sér eins og verstu fótboltabullur í borgarstjórnasalnum. Jú vissulega eru umdeild mál í gangi og ætla ég ekki að tjá mig um þá vitleysu alla. En nú skammast ég mín fyrir að vera Reykvíkingur. Ég skil ekki að salurinn skildi ekki vera rýmdur samstundis og útsending stoppuð.
Ég veit að erfitt getur verið að bera virðingu í sirkusnum öllum, en þetta er vettvangur borgarinnar og þar ber að fara eftir lögum og reglum. Ég hef oft setið í áhorfendastúku á alþingi og þar er fólki hent út umsvifalaust ef það sýnir einhverja háreysti eða truflun.
Þetta fólk þarf vinnufrið til að koma málunum í lag okkur borgarbúum til heilla, hver svo sem er í meirihluta. Við megum heldur ekki tapa okkur í persónulegu skítkasti. Æ ég veit ekki hvað á að segja en er hneyksluð á áhorfendum í borgarstjórnarsal og fjölmiðlum að viðhalda sirkusnum. Bara varð að tjá mig smá um þetta.
Hávær mótmæli í Ráðhúsinu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Nú er allt að verða vitlaust í vinnu kringum leiklistina. Ef það er ekki æfing á Gaukshreiðrinu þá er það æfing á Hjólastólasveitinni. Bæði verður frumsýnt í byrjun febrúar svo endilega fylgjast með á www.halaleikhopurinn.is.
Ég var sem sagt á laugardaginn á æfingu með Hjólastólasveinta hér heima í stofu. Heilmikið af nýju efni komið inn. Við munum troða uppi á Vetrarhátíð ásamt Hundi í Óskilum í Hafnarhúsinu 7. febrúar nk. kl. 21.00 og frítt inn. Bara gaman á þeim bæ sem starfar nú sjálfstætt, komin með kennitölu og alles. Steft á heimildarmynd í sumar.
Á laugardagskvöldið var kíkt í 40 ára afmæli hjá vini okkar hjóna og leikfélaga Kidda 3 eins og við köllum hann. Gott partý. Til hamingju með daginn kallinn minn.
Á Sunnudaginn var svo Gaukshreiðrið. Fullt rennsli og allt í góðum gír, fengum lángþráðan hljóðmann til liðs við okkur og tónlistarmann sem ætlar að spila á sög í leikritinu. Einar Jörgensen nýji smiðurinn okkar hefur farið hamförum og Maggi ljósálfur fer líka hamförum sem og margir aðrir duglegir menn og konur. Það eru alger forréttindi að vinna með svona duglegu fólki.
Á sunnudagskvöldið var svo okkur vinunum úr Vin boðið í Borgaleikhúsið að sjá ræðismannsskrifstofuna. Um ýmislegt merkileg sú sýning en hún höfðaði ekki til mín, kannski var ég bara orðin of þreytt. Skemmti mér þó ágætlega.
Dagurinn í dag fór í að sinna Heklu og koma henni í dans. Heppin með þá stúlku líka. Bókaormur eins og afi og amma.
En enn vantar okkur ansi margt í leikmynd og búninga set listan hér fyrir neðan ef þú átt eitthvað af þessu og getur lánað eða gefið okkur hafið þá sambandi asahildur@internet.is
BÚNINGAR SEM VANTAR:
Reykslopp (silki td.) medium
3 Náttbuxur herra
2 Herrainniskó no. 41
Herrainnskó no. 42
Herrrainnskór no. 40 (hommalegir)
Herrainnskór no. 43
Hvítir klossar (spítalaskór) no. 44
Hvítir klossar (spítalaskór) no. 43
2 bláar herragallabuxur no. 29
Hvítir kvk.innskór no. 37 f. breiðan fót
Hvítir inniskór no. 37 kvk.
Hvítir inniskór no. 35-7 f. breiðan fót
Fleira af búningum á eftir að bætast á listann
Leikmunir sem okkur vantar:
2 stk ca. líters áfengisflöskur (plast)
5 lyklakyppur á hjóli/keðju
bakki undir lyfjagjafarbolla
litla skrifblokk
ermahlífar og gúmmíhanska
handtöskur/tuðrur (skoða seinna)
Hálskragi mjúkur (eins og er notaður eftir slys)
Hitapoki gamaldags
Hljómgræjur í búrið
jesúmyndir á vegg, frekar stóra
Jólaseríur auðvitað
klemmuspjöldin og upplýsingar fyrir þau
kveikjara
Lyfjaflöskur allar gerðir
Lyfjaglös allar gerðir
Lyfjaskápur stór með glerhurð
lykla slatta af þeim
peningaseðla (gerfi)
pillur helling (ekki lyf)
Plastblóm/Silkiblóm ???
Póstkort sem má skemma
rafmagnsrakvél, hljóðið verður að virka
Sjúkraskýrslueyðublöð
sjúkraspjald
Skýrsla um vinninga McMurphys
spennitreyju
sprengjudót f Scanlon
8 strimlagardínur 120 * 100
Tuðra (íþróttataska)
Spraybrúsa (hreingerninga)
tyggjóPLÖTUpakka
varalitapensill
Listinn er svo jafnóðum uppfærður á vef Halaleikhópsins www.halaleikhopurinn.is þar má svo sjá myndir og fræðast um þennan merkilega leikhóp sem hefur heltekið mig.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
19.1.2008 | 00:57
Jólatré og ýmis áform
Ég held ég hafi slegið met þetta árið, 18. jan. og jólatréð fór niður í kvöld. Hef oft verið sein með þetta en aldrei eins og nú. Er enn með seríur í gluggum og hillum og jólaskraut hér og þar. Tími ekki að taka það niður strax, já og nenni því ekki.
Það er svo margt margt skemmtilegra og meira spennandi að gera. Æfingar á Gaukshreiðrinu á fullu og gengur mjög vel. Ekki gengur eins vel með leikmyndina en er þó að sleppa fyrir horn. Búningamál enn ekki komin í horfið, gengur illa að finna manneskju í það. Vantar líka tæknimann. Ég elska þennan tíma þegar æfingar og uppsetning á leikriti er á fullu. Ég finn að ég get ýmislegt og geri það. Annað get ég ekki og þá er alltaf einhver annar sem getur það. Ég er að starfa með stórum hóp af fólki sem hver og einn er sérstakur og yndislegur. Ég er svo þakklát fyrir að fá tækifæri til að njóta mín í þessum félagsskap.
Nú er líka vinna við undirbúning ferða ársins hjá Ferðafélaginu Víðsýn þar sem ég er í stjórn á fullu skriði og mikið unnið og kafað á netinu, miklar pælingar í gangi og ég held það sé alveg að verða öruggt að ég kíki út fyrir landsteinana í ár í þeim frábæra félagsskap. Bjögga vinkona mín og umboðsmaður hefur séð til þess. Takk Bjögga mín.
Nú svo er Hjólastólasveitin líka á fullu, verður með uppistand í Hafnarhúsinu 7. feb. ásamt Hundi í Óskilum. Æfingar þar á fullu líka og ýmislegt spennandi í bígerð. Þar er stefnt hátt þetta árið svo líklega fæ ég ekkert tækifæri til að leggjast í leti næstu mánuðina. Reyni samt að passa að hvíla mig á milli og hlíða Gústa mínum sjúkraþjálfara svo maður hafi nú orku í þetta.
Kannski kalla ég út björgunarsveit í vor til að taka rest af jóladóti niður eða ekki.....
Verð með jólahúfu á bloggmyndinni þar til tölvan mín birtist heima með Photoshoppið og alla dásemdina sem ég sakna svo mikið.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
15.1.2008 | 01:13
Missti nokkur af þessu
Í Kastljósinu í kvöld 14. jan. var viðtal við tvær heiðursystur sem ég ber mikla virðingu fyrir sem og allri þeirri fjölskyldu. Ef þið hafið ekki fylgst með Snædísi og Áslaugu má enn sjá það á þessari slóð http://dagskra.ruv.is/streaming/sjonvarpid/?file=4365590/1
Ég hef orðið þeirrar gæfu njótandi að kynnst þeim nokkuð og fylgjast með þeim og fjölskyldunni. Þar sem Frosti mágur er bróðir Hjartar föður þeirra. Var ma. með þeim á gamlárskvöld.
Margt hefur maður lært af þeim svo endilega kíkið
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
10.1.2008 | 23:48
Já eigum við ekki að taka þetta upp líka
Kína í gær Ástralía í dag. Væri ekki ráð að við hugsuðum okkur til hreyfings líka. Það er einhvernvegin þannig með landann að það þarf að banna alla skapað hluti svo við hugsum. Tóm forræðishyggja mikilvæg hjá þessari gáfuðustu, hamingjusömustu og ríkustu þjóð í heimi.
Alla vega ég er hlynnt þessu þó sjálf sé ég hinn versti umhverfissóði og játa það hér með. Hef oft hugsað þetta en gríp svo í næsta plastpoka í verslunum eins og allir hinir. Já við erum hjarðþjóð og þurfum boð og bönn eins og það er nú merkilegt.
Annars bara allt gott að frétta úr húsinu á Sléttunni þrátt fyrir bloggleti sem skýrist aðallega af fjarvistum tölvuengilsins míns sem hefur tekið miklu ástfóstri við snjóvél eina í Sólheimunum og harðneitar að koma heim. Fréttir herma þó að nú eigi að fara að pakka vélinni niður með jólatrénu sem það blæs snjónum yfir og kannski hún skili sér þá heim aftur.
Annars eru félagsmálin fyrirferðarmikil þennan mánuðinn, fullt af fundum og æfingar á Gaukshreiðrinu alla daga og alls kyns framkvæmdir því tengt.
Enn höfum við ekki fundið manneskju til að hafa yfirumsjón með búningunum í verkinu svo ef þú veist um einhvern sem kann á slíka hluti endilega verið í bandi....
Notkun plastpoka verði hætt á árinu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)