Litli spekingurinn minn

„Amma þú ert mesta jólastelpa sem ég þekki“ sagði prinsessan mín þegar ég keyrði hana heim eftir bíóferð í kvöld. Við keyrðum framhjá Húsasmiðjunni og ég tendraðist öll upp þegar ég sá upplýstu jólatrén. Ég hafði fengið annað slíkt kast þegar ég keyrði hana í dans í vikunni og sá líka upplýst jólatré. . . .

Já ég elska jólaljós og fæ sjaldan of mikið af þeim. Mér finnst þau guðsgjöf í skammdeginu hér á Fróni sem ég finn mikið meira fyrir nú í ár en áður eflaust birtumunurinn frá s. afríku.

Svo fórum við að tala um jólatilhlökkun, þetta er hálfgert vandamál sagði hún „því allir eru byrjaðir að spyrja mig hvað ég vilji fá í jólagjöf“ „Og“ sagði ég „ertu ekki komin með óskalista?“ „ Nei“ sagði hún og dæsti (stórt vandamál) „Langar þig ekki í neitt“ sagði ég. „Nei nei ég þarf ekkert að eiga fullt af hlutum“ sagði hún.

Hún er svo nægjusöm þessi elska komin með nýju Harry Potterbókina og aðalvandamálið er þar að hún þarf helst að sofa ofan á henni svo foreldrarnir steli henni ekki til aflesturs meðan hún sefur. Spái því að hún klári hana um helgina.

Þegar við vorum að verða komin uppí Breiðholt datt út úr spekingnum „Amma ég verð nú að viðurkenna það að ég er vaxin uppúr þröngu gallabuxunum mínum og gæti alveg hugsað mér að fá nýjar“


Félagsmálstörfin taka sinn toll

Í gær var mikill fundardagur hjá mér, fyrst í stjórn Víðsýnar svo félagsfundur hjá Víðsýn sem var nokkuð strembinn, menn greinir á um ýmislegt en farsæl lausn fannst.

Seinna um daginn var svo stjórnarfundur hjá Halaleikhópnum sem var mikill vinnufundur og strax á eftir var félagsfundur hjá Halanum. Sem sagt brjálað að gera og maður aðeins lúinn eftir alla fundina.

En nú erum við að fara af stað með að undirbúa sumarferðir Víðsýnar 2008 og verður það bara spennandi. Og Gaukshreiðrið byrjar í æfingum á sunnudaginn.

Það er alltaf gaman og þroskandi að taka þátt í félagsstörfum en undarlegt samt hvernig allir fundir raðast stundum á sömu dagana í ólíkum og ótengdum félögum.

Ágúst sjúkraþjálfari tók líka hressilega törn á grindarskrattanum í gær svo kannski er ekki nema von ég hafi verið orðin uppgefin þegar heim kom. Grindin er alls ekki að láta undan eftir ferðalögin heldur kvartar og kveinar alla daga og nætur sem er öllu verra. En þetta hlýtur allt að vera á uppleið alla vega læt ég hana ekki stoppa mig og taka völdin.


Gaukshreiðrið Ertu Cockoo og vilt vera með í spennandi verkefni ?

Það hefur vonandi ekki farið fram hjá neinum að mikið líf og fjör hefur verið hjá Halaleikhópnum allt síðasta ár, vegna afmælisársins.

Nú eru kaflaskil, á næstu dögum hefjum við æfingar á GaukshreiðrinuOne Flew Over the Cockoo's Nest", eftir Dale Wasserman byggt á skáldsögu Ken Kesey (1962) í þýðingu Sonju B. Jónsdóttur.

Um leikritið:

Gaukshreiðrið endurspeglar á óviðjafnanlegan hátt þann uppreisnaranda, sem ríkti í vestrænum heimi á seinni helmingi sjöunda áratugar síðustu aldar. Það gerist á ríkisreknu geðsjúkrahúsi, þar sem einn vistmaður æsir sjúklinga á stofnuninni með sér í uppreisn gegn því, sem hann telur vera miskunnarlaust harðstjórnarkerfi. Kerfið bregst ókvæða við og ekkert er látið ógert til að brjóta uppreisnina á bak aftur, hún fær vægast sagt óvæntan og óhugnanlegan endi og verður upphafsmanni hennar dýrkeypt.

Það fjallar um eðli geðveikrahæla, stöðu sjúklinganna innan þeirra og hvað felist raunverulega í geðveiki. Kannski á sumt við, enn þann dag í dag. Í verkinu er velt upp spurningunni, hvort raunveruleg andleg heilun fáist með því að húka inni á geðveikrahæli fjarri venjulegu lífi og láta kerfið ákveða, hvað komi sjúklingunum best.

Gaukshreiðrið er í senn ógnvekjandi, grátbroslegt og sprenghlægilegt og þetta samspil er fyrst og fremst ástæðan fyrir hinum feikimiklu vinsældum, þessa heimsfræga verks.

Leikstjóri:

Við höfum ráðið Guðjón Sigvaldason til að leikstýra okkur. Hann er okkur að góðu kunnur leikstýrði hjá okkur Fílamanninum 2004 og Kirsuberjagarðinum 2005, auk þess að hafa haldið tvö leiklistarnámskeið fyrir okkur 2003 og 2004. Athygli er vakin á að ýtarleg umsögn er um hann og ferilskrá á vef Halaleikhópsins. http://www.halaleikhopurinn.is/gaukshreidrid.htm. Guðjón mun koma á félagsfundinn fimmtudaginn 8. nóv. nk. kl. 20.00 og kynna verkið og svara þeim spurningum, sem upp koma.

Annað:

Áætlað er að leikarar í verkinu verða 16 - 20  auk allra annarra, sem  koma að uppsetningu á leikritinu. Æfingar hefjast eins og áður er komið fram, næstu daga. Ætlunin er að æfa í nóvember, taka svo frí desember og hefjast handa svo strax eftir áramót. Við stefnum að frumsýningu kringum mánaðarmótin jan. - feb. 2008

Þeir sem hafa áhuga á að taka þátt í uppsetningu verksins, eru hjartanlega velkomnir og bendum við þeim á að hafa samband við okkur í gegnum netfangið halaleikhopurinn@halaleikhopurinn.is eða hringja í síma 692-3630. Nú eða bara mæta á félagsfundinn á fimmtudaginn.

Nýjir félagar eru hjartanlega velkomnir. Mikinn mannskap vantar í hin ýmsu störf svo sem: Leikara, ljósamenn, hljóðmenn, tæknimenn, leikmyndasmiði, málara, sminkur, hárgreiðslufólk, saumakonur, búningahönnuði og hönnuði af öllu tagi, hugmyndaríkt fólk, framkvæmdastjóra, miðasölufólk, ýmis eldhúsverk þarf að vinna og ræstitæknar eru mikilvægir, einhvern til að hughreysta og knúsa þegar mikið gengur á, aðstoðarfólk af ýmsu tagi, auglýsinga hönnuð og framleiðanda, fólk sem getur hjálpað við styrkumsóknir, fjáröflunarfólk, leikskrárhönnuði, bakara, einhver þarf að vinna í sjoppunni og sjá um hana, fólk til að hengja upp auglýsingar, einhvern sem brosir, upplýsingafulltrúa, tölvumann, einhvern til að sjá um heimasíðuna og er hér bara fátt eitt upptalið. Við þurfum semsagt fólk, með mismunandi hæfileika.

Allir geta gert eitthvað, að deila hæfileikum sínum með þessum hóp, er tóm gleðiuppspretta, bæði fyrir þann sem veitir og þiggur og deilir því með öðrum.

Endilega áframsendið þetta á þá, sem þið haldið að séu áhugasamir um að taka þátt í uppfærslunni á einn eða annan hátt.

Allar nánari upplýsingar um Halaleikhópinn er að finna á http://www.halaleikhopurinn.is/


Afréttari

Já dóttir mín Kjaftaskurinn segir alveg satt ekki á að blóta á netinu. Sorry darling.

Fór niður í Vin í dag og tókst að rétta af áttavitann og kom jákvæð og full orku heim.

Alltaf gott að hitta vinina og fá knús og trilljón hamingjuóskir. Heilsuhópurinn var í dag og þar var verið að fjalla um að setja mörk. Þörf ábending til mín og fékk mig til að hugsa ýmislegt. Næst á að fjalla um jólakvíðann en hann þekki ég af eigin raun. Þó ekki síðustu ár vonandi get ég deilt einhverju jákvæðum fræjum þar eftir viku.

Ég vona að nú standi ég á tímamótum. Búin með hálfa öld og það er undir mér sjálfri komið hvernig ég ver næstu hálfu öld eða svo.....

Það var svo stjórnarfundur í Ferðafélaginu Víðsýn þar sem ýmislegt skemmtilegt var plottað og mikið að hlakka til. Félagsfundur þar á fimmtudaginn já og reyndar líka í Halanum svo næg verkefni eru framundan.

Í kvöld á ég svo von á sérlega skemmtilegum og fyndnum gestum. Hlakka mikið til.

Er sem sagt komin í jákvæðni gírinn aftur Smile

Veit ekki hvort ég þarf sólgleraugu í skammdeginu Cool


Ansk..... Helv.....

Nú er það ljóst að myndirnar finnast ekki í Afríkunni heldur........

Hrikalegt að glata þessum æðislegu minningum.

Þá er þetta frá og best að fara að hugsa um eitthvað annað.


Sjokk

Er að fara í gegnum myndirnar mínar úr s.afríkuferðinni og er í losti. Einhvern veginn virðast myndir frá 17 til 25 okt hafa glatast. Finn engan veginn út úr þessu. Þetta eru myndir sem voru teknar á kortið sem hvarf en var búið að setja inní tölvu í Greyton og á USB lykilinn minn en finnast ekki þar. Þetta eru myndir af mörgum bestu dögunum mínum. Svo ég er miður mín. Búin að senda mail út og vona að þær finnist í tölvunni úti. Nóg var samt að tapa myndunum á glataða minniskortinu.

En það er gott að vera komin heim. Mér brá samt ansi mikið við birtuna og veðrið úff. Mér finnst aldrei bjart eftir allt sólskinið í afríkunni. Ég er ekki vön að láta skammdegið fara í mig en þessa dagana gerir það það. Kannski eru það ýmsar slæmar fréttir líka sem ég hef fengið sem eru að draga mig niður og þreyta.

Ætla að reyna að rísa upp enda fullt að skemmtilegum verkefnum að fara í gang sem halda mér gangandi í skammdeginu. Þarf bara smá aðlögun.


15. hluti ferðasögunnar og sá síðasti úr stílabókinn.

 

Miðvikudagur 31. okt. 2007 kl. 08.50. Costa, Heatrow terminal 1

Flugið gekk vel, sat við gang og með þægileg mæðgin mér við hlið. Var ansi þreytt þegar ég kom í vélina, átti erfitt að halda mér vakandi fram að mat. Sem var ekkert sérstakur í þetta skiptið. Horfði á eina mynd sem ég man ekki hvað heitir en var um hjón þar sem konan fékk alsheimer, þetta var bara nokkuð góð mynd. Svaf svo alla nóttina með nokkrum hléum. Var enn ansi sybbin þegar við lentum, hélt ég væri bara alveg búin á því öllu saman. En ég vaknaði þegar ég kom út og er bara hress en talsverða verki í grindinni enda ekki nema von eftir öll ævintýrin.

En þvílíkur munur á fyrri ferðinni og þessari hvað kvíða og spennu varðaði, nú gekk þetta bara allt smurt og ég finn fyrir auknum styrk og getur J

Ég var smá stund að finna skilti sem vísaði á lyfturnar góðu J Og vitir menn sama ævintýrið byrjaði aftur. Maður flaut með straumnum út 2 sinnum á vitlausri hæð, munurinn var að nú vissi ég hvert ég ætti að fara og skemmti mér konunglega í þessum lyftum. Mér gekk svo ágætlega að finna lestina en fékk ekki að fara á 1 klassa aftur (undarlegt) og er hér komin á Costa.

Jæja en ferðin til Cape Town gekk vel við tróðum okkur fjórar inní Bimmann með allan okkar farangur og Guðmundur kom með og ætlar að vera með okkur í tvær nætur og sýna okkur borgina.

Leiðin niðureftir er mjög flott og svo taka kofahverfin við í útjaðri Cape Town. Þau koma okkur íslendingum spánskt fyrir sjónir. En hér er mikil fátækt og miklar breytingar á þjóðfélaginu. Verið er að byggja betri hús fyrir þetta fólk sem hefur verið kúgað og illa farið með í áratugi.

Jæja við vorum búin að panta hótelherbergi á hóteli sem er í mörgum húsum í vernduðu hverfi þar sem eru öryggisverðir á hverju horni. Hér er glæpatíðnin víst ansi mikil. Þegar til kom fengum við svo Luxusvillu sem hafði losnað óvænt með fimm hjónaherbergjum með sér baði, eldhús, stofa með arni, garður með tveimur sundlaugum og ég veit ekki hvaða luxus var ekki. Allt svo fallegt alvöru listaverk um alla veggi. Já ef maður er ekki orðinn fordekraður eftir þessa ferð veit ég ekki hvað. Ég fékk stærsta og flottasta herbergið sem var með geggjuðu baðherbergi, marmaralagt með sérgarði, hægt var að opna glervegg út í garðinn þá var maður í baði úti og gat horft á gróður og uppí himininn. Geggjað J

Við ákváðum fyrsta kvöldið að sleppa Tabel Mountain sem allir túristarnir fara á tímdum ómögulega að eyða mörgum klst. í biðraðir höfðum svo stuttan tíma. Og ekki var hægt að fá miða út í Robin eyju þar sem Nelson Mandela var lengi í fangelsi.

Fyrsta kvöldið borðuðum við á Soho sem er á hótelinu, mjög góðan tailenskan mat. Komumst strax að því að þetta hverfi er mjög miðsvæðis og frekar fínt. Er mjög vinsælt Gay svæði. Hér morar allt í gullfallegum hommum ;-) Bryndís var harðákveðin í að kíkja á næturlífið á Gaystöðunum en fylgdi okkur samt framanaf kvöldi.

Við fórum á Manhattan sem er vinsæll hommabar á næsta horni við hótelið. Þar vor mjög frægar konur að skemmta og allt vitlaust. „tree tonns of fun" I love you bebe var aðallagið. Við Guðmundur og Bryndís hentum okkur inní þvöguna þetta var sko eins og í kavíartúpu vel troðið og maður hreyfðist með mannskapnum. Dönsuðum villt og galið smá stund með hendurnar um vasana til að forðast þjófa. Gaman gaman. Þrýstumst svo út aftur og fundum Toru og Tune á næsta bar inní porti sem er með nokkrum veitingastöðum og verslunum. Fengum okkur einn fyrir svefninn.

Við Guðmundur fengum svo annað brjálað hláturskast þegar heim kom þegar við vorum að spá í þessum fínu aukahlutum á luxushótelinu sem við vissum bara ekki til hvers væru ætlaðir. Hlógum okkur til óbóta af tómri vitleysu.

Daginn eftir var svo vaknað snemma til að sjoppa og kíkja á bæinn. Thora vaknaði fárveik og Guðmundur þreyttur, svo eftir morgunmatinn skunduðum við Bryndís að kanna svæðið meðan hin lúrðu aðeins lengur. Við röltum á markaðinn og fundum Monckie Biz sem áætlunin var að kíkja á seinna um daginn með Turu.

Keyptum okkur svo brauð, osta, lifrapaté og gummilaði til að taka með heim í smá Lunce. Þá voru hin strokin svo við slöppuðum bara aðeins af og fórum svo að hitta þau niður við Monckie Biz sem er verslun uppi á þriðju hæð inni í flottri búð sem veitir smá húsnæði í verkefnið sem gengur út á það að fólkið fátæka í Town shipinu fær perlur og víra og frjálsar hendur um hvað það gerir við þetta. Munirnir eru svo seldir þarna og allur ágóði fer beint til þeirra. Þarna kenndi ýmissa grasa of fullt af fallegum hlutum. Sem höfðuðu þó ekki mikið til mín. Keypti samt perlu Buffaló til að hafa á ísskápnum og eitthvað smádót annað.

Dagurinn fór svo í göturáp milli búða, markaða, og kaffihúsa. Seinnipartinn fórum við svo á verslunarsvæði við höfnina. Moll og minjagripir. Fundum Ocean Basket sem við höfðum verið svo ánægðar með í Hermanus svo við snæddum Dinner þar. Ekki stóðst þessi nú samanburðinn en maturinn var samt góður.

Cape Town heillar mig ekki baun ólíkt öðru í s. Afríku, markaðirnir nánast ekki með neinni fjölbreytni, allt eins og lítið spennandi. Fann engin spennandi föt á mig eða Ödda leitaði þó nokkuð samt.

Þegar heim var komið fór allt í bál og brand milli tveggja í hópnum og ég sat og róaði einn fram eftir nóttu. Erfitt og átakanlegt en leystist farsællega daginn eftir. Þreyta og alkóhól fara illa saman og draga það versta fram í fólki sem oftast er bara tómur misskilningur.

Jæja kl. er 9.45 ætla að fara að tékka á hvort farið er að tékka inn í flugið.


14 hluti ferðasögunnar til s. afríku

30. okt. 2007 kl. 18.30 að afrískum tíma. Cape Town airport, Dulcé café.

Loksins eftir æðislega ferð er ég komin á heimleið, sloppin gegnum tékk með 29 kg. Bumbulínu. Flýg kl. 20.50 til Heatrow. Kom hér mjög tímanlega og dúlla mér. Enginn kvíði fyrir ferðinni heim, bara tilhlökkun að hitta fólkið mitt sem ég sakna mjög mikið.

Í morgun þegar klukkan hringdi sendi ég Guðmundi og Bryndísi sms um að ég kæmi ekki í morgunmat 8.30 eins og ákveðið hafði verið kvöldið áður. Var þreytt og syfjuð eftir erfitt kvöld, kvöldið áður. Vissi líka að Guðmundur og Víkingarnir þyrftu að ræða erfiða hluti ég ég bara nennti ekki að taka þátt enda hafði þetta mál ekkert með mig að gera. Svaf bara aðeins lengur enda full ástæða til að hvíla sig sem best fyrir heimferðina.

Allavega fór þetta allt vel og þau komu brosandi heim öll sömul. Stundum þarf að ræða út um ákv. hluti og það var gott.

Við Guðmundur fórum svo í síðbúinn morgunverð með manni sem hann hitti kvöldið áður og var búinn að mæla sér mót við nóttina áður á bar. Guðmundur var að reyna að fá hann til þess að koma og vinna hjá sér sem þjónn. Jafnvel yfirmaður seinna. Enda sagðist hann vera með reynslu á því sviði. Fyrst verða þeir að sjá hvort þeir geta treyst honum. Held að aðalspurningin sé hvort hann fýli að búa í svona litlu þorpi. Vonandi gengur það upp því Guðmundur rak einn þjóninn á laugardaginn meðan leikhúsið var á fullu. Svo þeir eru undirmannaðir og 150 manna brúðkaup framundan á laugardaginn. 

Víkingarnir voru að fara kl. 13.30 út á flugvöll svo við fórum í snemmbúinn Lunch með þeim í portinu skemmtilega sem við höfðum fengið okkur í glas fyrsta kvöldið í Cape Town.

Ég pantaði mér uppáhaldið mitt Kjúklingalifur og hún var sko góð namm namm, en undarlega borin fram í súpu með basil. Góð blanda.

Erfitt var að skilja við Guðmund sem varð að drífa sig heim. Og ekki léttara að skilja við nýju vinkonurnar frá Noregi sem gerðu þessa ferð fyrir mig enn fullkomnari en ella. 

Þrjár mjög ólíkar stelpur.

Bryndís Leiðtoginn sem er gourmet kokkur og rekur verslun í Osló kem kokkavörur, er lessa (veit ekki hvort það skipti máli en það var bara svo stór partur af karakternum svo ég hef það með). Hún er með tattoo á framhandleggnum stórt frá olnboga og niður sem stendur á HUMAN með gömlu ensku skrautletri. Þetta tattoo fleytti okkur yfir marga samskiptaerfiðleika við innfædda. Hún er ekki svört, hvít, lituð eða lessa bara HUMAN. Flott töff stelpa við náðum vel saman og hún hjálpaði mér mikið í ferðunum.

Tora sem er geðhjúkka í Osló fer heim til sjúklinganna og aðstoðar þá til sjálfshjálpar. Hún er svo blíð og góð og hjálpsöm og skilningsrík og alger perla alltaf svo pen. Reyndist mér líka ákaflega vel eins og þær allar.

Tuna er aðeins eldri, félagsráðgjafi í Osló og er að fara á eftirlaun. Ég kynntist henni minnst því hún talar norsku með þýskum hreim og litla ensku þannig að ég átti alltaf í fullu fangi við að skilja hana. En hún er svona hippatýpa, grænmetisæta og reykir eins og strompur. Við náðum samt vel saman og náðum að tengjast góðum böndum.

Þrjár splunkunýjar vinkonum, allar hörkukellur sem eru reynsluboltar eins og ég og hafa reynt ýmislegt gegnum ævina.

Það sem sameinaði okkur í upphafi var að allar vorum við komnar yfir hálfan hnöttinn til að sjá með eigin augum hvernig okkar ástkæru Villi og Guðmundur hafa það. Sameinuðumst í ást til þeirra.

Víkingarnir og Guðmundur höfðu öll kynnst þegar þau voru ung. Guðmundur, Bryndís og Tora höfðu unnið saman, og Guðmundur leigt hjá Tune. Bryndís og Tune þekktust ekki mikið fyrir ferðina en vissu vel af hvor annarri gegnum árin. Ákváðu svo allar þrjár að skella sér saman til að upplifa ýmislegt áhugavert saman.

Veit að nú eru meiri líkur en áður á að ég stefni á að heimsækja Stebba bróðir til Osló ef fjárhagur leifir næstur árin eftir að hafa kynnst þessum perlum í frá Osló. Hver veit hvað framtíðin ber í skauti sér.

Jæja eftir að þær fóru skellti ég mér ALEIN á netkaffihús og bloggaði smá. Var svo sótt af TAXA 15.30 sem Guðmundur hafði pantað fyrir mig um morguninn.

Þegar ég kom út á flugvöll sem er verið að byggja við afhenti bílstjórinn mig einhverjum Porter sem tók töskurnar mínar og keyrði þær eftir alls kyns ranghölum að innganginum og vildi fá borgun fyrir. Ég greiddi honum með bros á vör fegin að þurfa ekki að finna út úr því að rata sjálf og láta þjóna mér.

Tíðindalaust gekk að tékka mig enn þó ég væri með 29 kg. tösku 7 kg. í yfirvigt. Þurfti ekkert að borga :-)

Ég er orðin svo mikið Buffolófrík að ég sogaðist að öllum minjagripabúðum eins og mý á mykjuskán, er komin með nokkra :-)

Fékk mér hamborgara á Dulcé café og skrifa hér af miklum móð í stílabókina grænu góðu sem hefur fylgt mér alla leiðina. Á eftir 22 rönd ætla að athuga hvort mér tekst ekki að koma þeim í lóginn áður en ég fer 19.25.

Ha hal fann Buffalópóstkort Reyni að póstleggja þau á Heatrow. Hlakka ekki til að fara með Bumbulínu gegnum Heatrow og milli termínala hún er orðin ansi þung í vöfum.

Hef á tilfinningunni að ég sofi í þessu flugi er þreytt og sveitt as usual á flugvöllum.

 


Maurahland

Loksins er ég komin heim úr þessari miklu ævintýraför, marin, bitin, með brotna tönn og maurahland á hökunni en alsæl og þakklát.

Mjög þreytt en mikið er alltaf gaman að koma heim og gott að fara á sitt eigið klósett, sína sturtu og sitt rúm ;-)

Ekki það að ég hafi ekki lifað í lúxus ó jú.

En tölvan mín skrapp víst í frí líka meðan ég var úti og seinkaði fluginu hennar eitthvað heim svo frekari ferðasaga og myndir bíða betri tíma. Á margar síður óskráðar inn í tölvuna í stílabókinni góðu. Svo bara bíðið róleg eftir framhaldinu.

Hér biðu mín margir pakkar og heillaóskaskeyti frá fólki sem mér datt ekki í hug að myndu einu sinni hafa hugmynd um að ég hefði átt afmæli. Takk fyrir mig öll sömul. Ætla að ná úr mér þreytunni og sinna fjölskyldunni áður en ég fer að vísitera og þakka fyrir mig.

Norsku víkingarnir eru líka komnir heilir á húfi heim alsælir :-)


13. hluti ferðasögunnar

Hello nú er ég alein i s.Afriku. Víkingarnir farnir i flug til Noregs og Gudmundur heim i Greyton. Sit hér alein á netkaffihúsi i Cape Town. Hef þad fint og hlakka mikid til ad koma heim. Hér hefur ýmislegt gengið á og mikið af skemmtilegum hlutum lika. Ég legg af stað út a flugvöll eftir klst. hér er kl. 14.30. Lendi í Keflavik á morgun kl. 16.00 svo tetta verdur töff.

Ég er búin ad upplifa margt hér úti, svo vitið til ég er breytt manneskja eftir allar þessar upplifanir hér.

Enginn kvídi fyrir ferðalaginu ólikt þegar ég fór út. Kem sterkari heim

Villi og Guðmundur veit að þið lesið þetta. Nota tækifærið og þakka ykkur fyrir allt ævintýrið og að stiðja mig i öllu sem henti og að veita mér þetta sérstaka tækifæri til ad sjá hvernig þið lifið og að kenna mér að elska s. Afriku og BUFFALOANA :-)  

Víkingarnir fra Norge tak for mig.

Allir heima takk fyrir að gera mer þetta ferðalag mögulegt.

Hlakka mikið til að komast i mitt rúm með mínum heittelskaða :-)  :-)  :-)  :-)  :-)  :-)  :-)  sem studdi kellu í að komast til s.Afriku.

Kiss kiss og knús knús til allra.

Og fyrir leshringinn Höfundur Íslands er i bakpokanum hálflesinn :-)  


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband