Hekla er 10 ára í dag

L270707%20005

Ljósið í lífi mínu hún Hekla dótturdóttir mín er 10 ára í dag. Til hamingju Hekla og Blikabúar.

Ég er ekki viss um að ég væri á lífi í dag ef þessi elska hefði ekki komið í heiminn á þessum tíma og bjargað mér úr fjötrum geðveikinnar. Hún varð ljósið sem leiddi mig þá leið sem ég þurfti að ganga 5 ár á geðdeild þar sem ég fékk topp þjónustu sem því miður er ekki í boði í heilbrigðiskerfinu á Íslandi lengur.

Hekla er mér mjög náin eins og má sjá af færslum mínum hér allt frá því ég hóf að blogga fyrir 3 árum réttum Hér er upphafið Merkilegt hvað bloggið hefur leitt mann.

Fleiri eiga afmæli í dag eins og hann Tommi sem er 6 ára í dag og nýbyrjaður í skóla.

Og það sem mér finnst mjög merkilegt er að í dag eru 20 ár frá því að Trimmklúbbur Eddu var stofnaður. Skrifa meira um það seinna.

Til hamingju með daginn Hekla, Tommi og Edda.


Cockoo's Nest

Rakst á þetta HÉR á visir.is  Rétt er að benda á að þarna eru margar rangfærslur og fréttin ekki komin frá Halaleikhópnum. Fyrir það fyrsta er leikhópurinn ekki leikhópur fatlaðra heldur er eitt af markmiðum með honum að “iðka leiklist fyrir alla„ þar er átt við jafnt fatlaða sem ófatlaða. Þetta er sem sagt blandaður leikhópur opin öllum. Við erum ekki að hefja æfingar fyrr en í nóvember og höfum starfað í 15 ár um þessar mundir en ekki 12 eins og stendur í fréttinni. Fjöldi þeirra sem mun taka þátt er heldur ekki ljós enn svo segja má að þessi frétt sé afar illa unnin og ekki fengist um fá staðreyndir á hreint. Merkilegt þegar þeir bulla upp fréttir og birta en þegar við sendum inn fréttir þá er undir hælinn lagt hvort þær fást birtar.

Sem minnti mig á að setja þetta inn og benda ykkur á þið eruð öll velkomin:

Þankaroksfundur

Verður á miðvikudagskvöldið 5. sept. nk. kl. 20.30 í Halanum, Hátúni 12, vegna fyrirhugaðrar uppsetningar Halaleikhópsins á Gaukshreiðrinu. Allir sem hafa áhuga á þessu verki, hvort sem þeir ætla að vera með eða ekki, eru velkomnir. Guðjón Sigvaldason kemur og segir okkur frá sínum hugmyndum og við fáum tækifæri til að koma með okkar hugmyndir. Rætt verður um tímasetningar, leikmynd, búninga og fl. og fl. sem hugsanlega brennur á okkur.

­Í vetur mun Halaleikhópurinn setja upp Gaukshreiðrið (One Flew Over the Cuckoo's Nest) eftir Dale Wasserman byggt á skáldsögu Ken Kesey (1962) , í þýðingu Sonju B. Jónsdóttur. Við erum búin að ráða  Guðjón Sigvaldason leikstjóra til að leikstýra okkur. Æfingar hefjast í byrjun nóvember og stefnt er að frumsýningu í lok janúar. Tekið verður frí í desember og hafist handa strax eftir áramót. 

Gaukshreiðrið endurspeglar á óviðjafnanlegan hátt þann uppreisnaranda sem ríkti í vestrænum heimi á seinni helmingi sjöunda áratugar síðustu aldar. Það gerist á ríkisreknu geðsjúkrahúsi þar sem einn vistmaður æsir sjúklinga á stofnuninni með sér í uppreisn gegn því sem hann telur vera miskunnarlaust harðstjórnarkerfi. Kerfið bregst ókvæða við og ekkert er látið ógert til að brjóta uppreisnina á bak aftur, hún fær vægast sagt óvæntan og óhugnanlegan endi og verður upphafsmanni hennar dýrkeypt.

Það fjallar um eðli geðveikrahæla, stöðu sjúklinganna innan þeirra og hvað felist raunverulega í geðveiki. Kannski á sumt við enn þann dag í dag. Í verkinu er velt upp spurningunni hvort raunveruleg andleg heilun fáist með því að húka inni á geðveikrahæli fjarri venjulegu lífi og láta kerfið ákveða hvað komi sjúklingunum best.

Gaukshreiðrið er í senn ógnvekjandi, grátbroslegt og sprenghlægilegt og þetta samspil er fyrst og fremst ástæðan fyrir hinum feikimiklu vinsældum þessa heimsfræga verks.

Allar upplýsingar um Halaleikhópinn má finna á www.halaleikhopurinn.is

 


Frábærir

þetta fannst mér skemmtileg frétt og dái þá fyrir dugnaðinn. Menn sem eru á kafi í vinnu og leiklist, spilandi út og suður og nú farnir í fótbolta. Eins gott að það var ekki búið að finna upp ritalin þegar þessir ólust upp fyrir norðan.

Ekki kemst ég á tónleikana þessa frekar en alla hina sem ég hef heyrt af. Gengur eitthvað illa að samræma alla tíma þegar þeir eiga í hlut. En hlusta oft á diskinn og skemmti mér vel.

Áfram Ljótu hálvitarnir !!!


mbl.is Hálfvitar heita á Völsungsstúlkur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stóra tækifærið

Ég hef oft sagt það hér og segi það enn aftur. Ég á yndislega fjölskyldu þó svo hver sé með sínu lagi í henni.

Fréttin sem ég var að luma á er sú að Villi bróðir var að bjóða mér að koma til sín í heimsókn.  Hann býr ekki alveg í næsta húsi heldur alveg hinu megin á hnettinum í Greyton syðst í Suður Afríku. Ég átti ekki von á því að ég hefði nokkurn tímann tækifæri til að heimsækja hann þangað og fannst mjög erfitt þegar hann flutti þangað. En nú býður hann stóru systir til sín. Og auðvita sagði ég já takk Villi minn.

Þetta er ótrúlegt og eitthvað sem ég átti ekki von á. Síðan ég fékk fréttirnar hef ég velkst til og frá með alls kyns kvíðavænlega hluti og reynt að leifa þeim ekki að magnast upp. Ég er ekki ferðavön í útlöndum og ömurleg vægast sagt í tungumálum. Heilsufarslega illa fær um ferðalagið sem tekur sólahring tæpan, þar af 12 tíma flug samfleytt. Veit ekki hvað mitt króníska grindarlos segir til um það og hvort ég verði fær um gang eftir það.´

En ég skal og veit að þetta verður erfitt ferðalag en örugglega æðislegt tækifæri til að hitta þann bróðir minn sem ég hef verið nánust gegnum tíðina. Ég hlakka mikið til að dvelja með strákunum úti og fá að sjá hvernig þeir búa og lifa. Hvort þetta er tóm sápuópera eins og bloggið þeirra gefur til kynna eða hvað.

Ég á stórafmæli verð 50 ára í október og stefni á að vera úti á afmælinu. Hér heima hef ég fundið fyrir miklum þrýstingi á að halda veglega veislu en það er ekki það sem ég vil. Ég er alveg til í að halda veislur fyrir aðra en þegar kemur að mínum eigin afmælum vil ég fá að hafa það með mínu lagi og helst ekki neitt tilstand. Svo þetta boð þeirra Villa bróðir og Guðmundar mágs kemur á besta tíma fyrir mig.

Nú þarf ég víst að undirbúa ýmislegt, skilst ég verði að fara í hinar ýmsu sprautur og athuga eitt og annað og hamstra lyf. Já skrítilega orðað en svona er þetta. Ég er mígrenisjúklingur og þarf að taka lyf við köstunum sem ég fæ að meðaltali þrjú á viku. Og það er bara afgreiddar sex töflur í einu. Svo ég er fastagestur í apótekunum. Ekki það að þetta sé ávanabindandi lyf heldur bara fáránlegar reglur um lyf sem virkar vel á mígreniköst og ekki hægt að nota á neitt annað. Og hefur þar að auki hundleiðinlegar aukaverkanir.

Var með fjölskyldukvöldverð áðan þar sem ég fékk fjölskylduna til að stappa í mig stálinu og ráðleggja mér eitt og annað. Alltaf gott að borða saman og hittast.

Jæja meira um þetta seinna.


Mér finnst rigningin góð

if_rain_72da ra da aha nema þegar ég er í mínu fínasta pússi á leið í móttöku í Þjóðmenningarhúsinu og gleymi regnhlífinni heima. Hver notar svoleiðis á íslandi ? Kom sem sagt niðurrignd að taka á móti styrk vegna Gaukshreiðursins fyrir Halaleikhópinn hjá Félagsmálaráðherra í tilefni Árs jafnra tækifæra. Fengum 200.000 kr. ekki slæmt kannski 10 % af kostnaðinum við uppsetninguna :-)

En rigningin minnti mig á atvik sem átti sér stað norður í landi fyrir rúmum 30 árum í samskonar rigningu.  Gulla vinkona frá Borðeyri kom sem sagt að heimsækja mig í sveitina og við vorum á leið úr fjósinu og það húðrigndi og pollarnir voru um allt. Okkur greip einhver galsi enda á leið á ball um kvöldið as usual á þeim tíma. Við tókum okkur til og hoppuðum í hvern einasta poll og urðum gegnvotar og svakalega kátar. Man enn tilfinninguna um hversu skemmtilegt þetta var. Gulla manstu ?


Undarleg fyrirsögn

Hverjum datt í hug að lögga væri að skipta sér af svefntíma barna ? Eins og segir í textanum þá eru reglurnar komnar úr barnaverndarlögum en ekki frá lögreglunni.

 


mbl.is Forráðamenn hvattir til að gæta þess að börn fái nægan svefn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Frábært en

Þessi frétt gleður mig. Og enn meira gleður það mig ef umferðin á götum borgarinnar minnkar líka við þetta. Mér finnst þetta þó skrítið þar sem dóttir mín sem að öllu jöfnu notar strætó daglega er að gefast upp á honum þar sem breytingarnar á tíma leiðarkerfunum eru svo örar og illa hægt að glöggva sig á þeim.

En frábært og löngu tímabært. Hvað með öryrkja og aldraða á ekki að vera frítt fyrir þá líka og grunnskólanema. Legg til að það yrði prófað í heilt ár að gefa alveg frítt í strætó og sjá þá hvort það bætir ekki til muna umferðarflækjurnar í borginni.


mbl.is Fullt í strætó á morgnana
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

finn fyrir smá bloggskrifleti

En er voða duglega að lesa annarra blogg. Vann meira að segja orðu í dag hjá Sigfúsi bloggvini sem kallar sig partners fyrir að leysa vísnagátu.

Er komin í leshring hjá Mörtu Smörtu þar sem við erum byrjuð að lesa Lífið er annars staðar eftir Milan Kundera og þar er ekki nein smá erfið bók á ferð.

og tjái mig um eitt og annað í kommentum hjá bláókunnugu fólki sem mér finnst ég þekkja bara vel núorðið.

En er þó ekki bara í nethangsi, ætíð nóg að gera á mínum bæ. Tók mig til og afþýddi frystiskápinn og ísskápinn í dag og fór svo í Bónus og verslaði stórt, svo stórt að upphæðin á strimlinum minnti mig á jólin sem Arnar Laufabrauð bloggvinur með meiru segir að séu að nálgast hratt.

Í dag var síðasti dagurinn í göngudeild Trimmklúbbsins Eddu og sundleikfimin byrjar í næstu viku. Kannski maður dröslist nú samt til að ganga áfram, þó aðhaldinu sleppir.

Allt er farið á fullt hjá Halaleikhópnum og er leiklistarnámskeið að hefjast þar á laugardaginn. Nýir félagar eru velkomnir. Sjá nánar HÉR  Kjörið tækifæri til að prufa eitthvað nýtt í skemmtilegum hóp.

En stóra fréttin kemur ekki hér inn fyrr en eftir helgi af sérstökum ástæðum. En ég er með stóran hnút í maganum bæði af gleði og líka kvíða. Ýmislegt vefst fyrir mér en ég veit að ég get þetta og mun hafa mikið gagn og gaman af. Meira um það seinna.

Merkilegt samt hvað maður er fljótur í bakkgírinn þegar stórir hlutir gerast, kvíðahnúturinn hlykkjast um allt og setur kerfið úr skorðum. Munurinn er að í dag hef ég stjórn á þessu en hér áður stjórnaði kvíðinn mér. Gaman þegar maður rekur sig á og sér árangur á ögurstundu.

 

 


Kaffiprófið

Helga bloggvinkona benti á þetta bráðskemmtilega kaffipróf. http://kristk.klaki.net/annad/kaffi/

Ég reyndist vera:

Espresso!

Þú ert með eindæmum sjálfsöruggur einstaklingur. Þú ert vandvirkur og samviskusamur en lætur það þó stundum eftir þér að fresta verkefnum til morguns. Þú ert á sífelldri hraðferð án þess þó að það hái þér á nokkurn hátt.

Þú ert 30 ml af mikið brenndu eðalkaffi.

Endilega prófið.


Já takk

Ég missi ekki oft orðið en ég gerði það áðan algerlega.

Fékk upphringingu með ótrúlegu tilboði sem ég get alls ekki hafnað. Og heldur ekki samþykkt sökum orðaleysis. Ég er svo þakklát og þarna fæ ég leið til að láta stóra drauma rætast og líka lausn á öðru máli sem mikið hefur verið kvabbað á mér um en ég ekki til í að framkvæma.

Tjái mig ekki um málið hér í bili þarf lengri tíma til að melta þetta kostaboð. En til þeirra sem málið varðar segir fyrirsögnin allt sem segja þarf í bili.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband