er sumarið búið?

080727%20005

Mátti til að setja inn eina ljúfa sumarmynd. Var að velta fyrir mér hvort sumarið sé á enda. Hér eru bræður mínir í kveðjupartýinu áður en Villi fór aftur til afríku. Gott að eiga góðar minningar um sumarið til að ylja sér við á nöprum haustdögum

 


Spiladagur í Krika

Fékk þá hugdettu í vikunni að halda spiladag í Krika á morgun laugardag. Heyrði að spáin væri ekki frábær en á vaktina á morgun. Sendi út tölvupóst um hvippinn og hvappinn og bauð fólki í spilamennsku.

Ég fór áðan í Krikann og hitti nokkra félaga og mér heyrist bara á öllu að það verði sæmileg mæting. Gaman ef það tekst vel.

Allir eru velkomnir og ekki er skilda að spila eins og einn góður vinur minn spurði mig um. Svo má túlka orðið allavega held það hafi ýmsar meiningar aðrar en að spila á spil, td. má spila á hljóðfæri, búkinn eða spila með fólk svo fátt sé nefnt.

Ef þú hefur áhuga á að koma þá ertu velkominn. Kriki er sumarhús sem Sjálfsbjörg á höfuðborgarsvæðinu á upp við Elliðavatn. Þar er gott rými og góður andi. 

Leiðarlýsing ef komið er upp Breiðholtsbrautina þá er keyrt upp fyrir Fellahverfið og áfram beygt svo hjá Húsasmiðjunni og farið eftir þeim vegi eins og hann liggur í hlykkjum. Þegar komið er að hringtorgi nr. 2, þessu með stuðlaberginu, þá er beygt niður að vatninu og keyrt sem leið liggur fram hjá Elliðahvammi og aðeins lengra en malbikið nær. Þá blasir við hvítt sumarhús með stórum sólpalli umhverfis og Sjálfsbjargarfáninn við hún. Verið velkomin 


Kiddi 3 heim

Bara svona af því að margir hafa verið að spyrja mig þá var ég að tala við Kidda 3 ameríkufara á msn áðan og hann sagðist koma heim í fyrramálið. Ætlar að kíkja á Spiladaginn í Krika á morgun.

Í tilefni dagsins :-)

Óskar Bergsson

Við Óskar vorum saman á Reykjaskóla í Hrútafirði veturinn 1974 - 5. Nú er hann fjölmiðlastjarna dagsins eða.......Mátti til að skella þessari gömlu góðu mynd inn


Svartur blettur á Gay Pride í ár ?

 

080809%20244

Gay Pride dagurinn hefur lengi verið uppáhalds sumardagurinn minn í Reykjavík. Ég hef hlakkað til hans og notið árum saman. Að fara og taka þátt í göngunni hefur verið dásamlegt og gangan alltaf verið æðisleg. Atriðin jú verið misjöfn en það hefur ekki verið aðalmálið heldur gleðin og samhygðin sem fer í gang. Allir sýna sínu bestu hliðar og þetta er og verður vonandi áfram frábær skemmtun fyrir alla fjölskylduna.

Í ár brá mér aðeins við eitt atriðið var ekki alveg að ná því þar sem ljótleikinn virtist vera aðalmálið en ekki gleði og kærleikur. Þetta voru tvær manneskjur klæddar ósmekklega með ljóta góma uppí sér og ok ekki minn smekkur en allt í lagi með það. Hitt var að annar var í hjólastól, virtist ekki þurfa á honum að halda samt sem áður. Enda held ég að engin fötluð manneskja í dag myndi láta sjá sig á svona skrapatóli.  Jú hjólastólar á Íslandi eru sem betur fer að vandaðri gerð en þetta.

Þegar ég fór svo að skoða hinar fjölmörgu myndir sem ég tók í göngunni sjá HÉR þá varð ég hálf sjokkeruð, og fór að pæla í hver boðskapur þessa tiltekna atriðis væri.

Ég get ekki séð betur en þeir séu að gera grín að fötluðum og ljótleika fötlunar. Ég er orðin blossandi reið út i þetta atriði sem mér finnst hafa skemmt annars frábæra göngu. Jú kannski aðeins ýkt en allavega sett ljótan blett á gönguna í ár.

Ég hef aðeins verið að leita á netinu en ekki fundið yfirskrift atriðanna eða hver boðskapur þeirra er hvers fyrir sig. Væri gaman að sjá það.

Hvað finnst ykkur um þetta ? Nú vil ég komment takk fyrir.


já frábær flugeldasýning

Ég naut hennar uppí vitanum á Svalbarðseyri. Frábær útsýnisstaður. Klifraði þar upp dóttur minni til mikillar hrellingar og ormarnir eltu sem setti kjaftaskinn alveg út af laginu. Sorry Sigrún mín
mbl.is Fjölmenni á flugeldasýningu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Heil á húfi

Bara að láta vita að ég er komin heim heil á húfi frá Svalbarðsströndinni...

meira seinna


Tímaskekkja

já en hvað gerir maður ekki fyrir bræður sína sem maður sér allt of sjaldan.

Var sem sagt að leggja baunir í bleyti og ætla að halda Saltkjöt og baunir veislu annaðkvöld í hitabylgjunni fyrir Stebba bróðir og aðra fjölskyldumeðlimi.

Réttara væri að vera með kælt freyðivín og melónur með grillpinnum. En stóri bróðir pantaði þetta.......

Villi og Loana eru aftur á móti komin heil á húfi til s. afríku aftur eftir rúmlega sólahrings ferðalag og hringdu alsæl til að þakka fyrir sig.

 


Töff night

Kveðjustundir eru erfiðar, það er ekki flóknar en það. Þess vegna forðast ég þær yfirleitt, segi bara bless og læt mig hverfa í hita leiksins.

Í kvöld var Villi bróðir sem býr í s. afríku með kveðjupartý þar sem fjölskylda og vinir komu saman til að kveðja hann og Loanu sem eru búin að vera hér heima í 1/2 mánuð. Partýið var gott allir í voða stuði, dans, matur og drykkir og fullt af fólki. En í hverju horni var verið að kveðjast, gráta og öfgarnar á fullu. Mikið hlegið að tómri vitleysu en þessi þungi undirtónn.

Loana sem var í fyrsta sinn að koma úr þorpinu sínu í s. afríku þar sem nýlega er komið kalt vatn og salerni í partý í 101 með öllum miðbæjarrottunum og fjölskyldunni sem hafa það svo allt öðru vísi en hún. Þekkja það ekki að hafa ekki rafmagn, vatn og hita. Loana hefur ekki síma, ekki tölvu, ekki bað, ekki þvottavél, ekki bíl ekki maka, ekki tennur, ekki menntun, ekki heilbrigðisþjónustu ekki strætó og allt það sem við teljum sjálfsagða hluti.

Hún hefur vinnu er aðalkokkurinn hjá Villa bró á Greyton Lodge, hún á þrú börn með sitthvorum kallinum og þrjú barnabörn það er allt sem hún á. Hún er svo hamingjusöm og nú er nú búin að vera hér í boði Villa og Guðmundar og allir eru búnir að gera sitt til að kynna hana fyrir Íslandi og  okkar samfélagi á sinn hátt. Í kvöld komum við saman til að kveðja hana og það var hrikalega töff.

Svo var svo frábært hvernig hún tæklaði þetta hló og dansaði við fjöruga músik, og svo sat hún og grét af gleði yfir öllu sem hún hefur fengið tækifæri til að upplifa í ferðinni sem tekur enda í nótt.

Það er hreint ekki neitt grín að sitja í faðmlögum við konu sem er jafngömul mér og gráta saman af sorg og gleði á sömu stundu og hlusta á Mamma mia á fóninum.

Já kvöldið var töff.

Þó svo gott.

Dásamlegt að fá tækifæri til að vera með bræðrum mínum öllum í einu, fjölskyldunni og vinum. Vinum Villa og Kristjáni sem fær sérstakar þakkir fyrir að opna heimili sitt fyrir þeim og okkur.

Takk Kristaletta.

Í hugann koma ýmsar skrítnar hugmyndir eins og hvernig á þetta eftir að hafa áhrif á líf Leonu í framtíðinni? Hvað plöntuðum við inn hjá henni?

Gerði ég allt sem ég gat fyrir hana?

Æ mig langar núna aftur til s. afríku ............

 


family :-)

Veit að ég er ekki að sinna blogginu en svona er þetta nú. Það kemur í bylgjum eins og annað. Núna er sú staða uppi í fjölskyldunni að allir bræður mínir eru á landinu á sama tíma. Einn býr hér og er nýkominn til landsins úr löngu fríi, annar býr í Noregi og skrapp heim, sá þriðji býr í s. afríku og kom heim með kokkinn sinn með sér.

Þannig að ég hef verið upptekin við að sinna fjölskyldumálum og lítið bloggað. Enda er raunin sú að ég hélt blogginu áfram á sínum tíma, þegar skólanum lauk vegna bræðranna sem búa erlendis.  Þar sem ég er afar léleg símamanneskja.

Á morgun koma svo JÓLIN eða þannig þá ætlar öll fjölskyldan að hittast hér hjá mér og eiga gæðastund saman. Er að brjóta heilann um matseðilinn þar sem aðalkokkur fjölskyldunnar verður upptekinn í Rjóðrinu á eldunartímanum.

Ég er búin að fara á Gullfoss og Geysi, Þingvöll og víðar með Loanu sem er 50 ára og er aðalkokkurinn á Greyton Lodge hótelinu sem Villi bróðir á. Hún býr í þorpi sem er fyrir litaða en aðskilnaðarstefnan er enn við líði að hluta til þarna úti. Húsakinnin eru á stærð við meðalsvefnherbergi í blokk á Íslandi. Nýlega fengu þau kalt vatn og klósett í hvert hús og rafmagn. Þegar ég labbaði gegnum þorpið í haust þá sá maður sums staðar baðkör í húsagörðum. Þau eiga ekki neitt til neins og fátæktin er mjög mikil. Loana er mjög dugleg og sinnir sínu starfi af alúð sem er meira en hægt er að segja um ansi marga þarna úti.

Því hefur það verið mikið ævintýri að flakka með hana í Smáralindina, miðbæinn, kirkjugarðinn, Perluna og víðar. Hún hefur líka fengið tækifæri til að skoða nokkur eldhús og elda á Humarhúsinu. Henni finnst þetta æðislegt. Allir hafa tekið vel á móti henni og ljóst er að hún fer mun ríkari út en hún kom. Af stað fór söfnun á Jómfrúnni og meðal vina Villa og Guðmundar og umslagið er orðið ansi feitt sem hún fær áður en hún fer. Auk þess er hún búin að fá gjafir fyrir alla fjölskylduna og samstarfsfólk já og líklega hálft þorpið. Takk fyrir öll sömul sem hafa lagt henni lið.

Fjölskyldusælan er þó ekki á enda því fram undan er svo ferðalag norður með tengdafjölskyldunni allri í brúðkaup. Stuð stuð stuð.

Mér finnst ég vera ansi heppin kona þessa dagana


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband