Bússa var það heillin

Alltaf lærir maður ný orð. Bólgin Bússa er sem sagt nýjasta greiningin á hælmeininu mínu þráláta. Bússa er vökvabelgur sem er milli hælbeins og hásinar. Hann er víst bólginn og með auknum vökva í hægra megin. Mér var skellt í laser og lagðar lífsreglurnar sem vekja aftur upp stóra skóvandamálið.

 


Sitthvað lætur undan

Fagnaðarlátunum ætlar aldrei að linna í röðum okkar Halafélaga yfir sigrinum. Í kvöld hitti ég allan hópinn og æfingar hefjast aftur. Hlakka mikið til að hitta þau. Framundan er mikil vinna og vonandi tekst bara að virkja sem allra allra flesta.

Við Guðjón fórum og skoðuðum stóra sviðið og erum svona búin að máta okkur inn í húsið. Þjóðleikhúsið er að taka á móti okkur með glæsibrag. Búið er að fara um allt hús og finna leið fyrir leikara í hjólastólum til að komast á klósett. Húsið er gamalt og barn síns tíma en þó er búið að lagfæra ýmislegt og meira er í bígerð.

Sjónvarpið okkar þoldi ekki álagið og neitar að kveikja á sér, enda munum við eflaust ekki hafa neinn tíma til að horfa á það á næstunni. Fengum þó annað gamalt þangað til við finnum eitthvað varanlegt í þeim málum. Það er ekki alveg á fjárhagsáætlun þetta árið.

Undarlegasta upplifunin var samt sú að ég vaknaði með hita í morgun. Hef ekki fengið hita í áratugi nema eftir stórar skurðaðgerðir og sýkingar. Er með hósta, hélt það væri bara eftir samveru með reykingarfólki um helgina...... Skal samt á æfingu en fresta öllu öðru.


húge súgséss

eins og maðurinn sagði......

Var að koma í bæinn á adrenalínflippi eftir viðburðaríka helgi norður í Skagafirði.

Það var þing BÍL sem ég sótti. Gott og vinnusamt þing í dásamlegum félagsskap, þar sem stjanað var við mann á ýmsan hátt.

Með í för norður var Stebba frá Halanum og Gunsó Halapeð eins og við köllum hann hér eftir og Gulli peð sem er fyrrum hali...... Skrautlegir ferðafélagar í meira lagi......

Hið óvænta gerðist !!!! við í Halaleikhópnum unnum keppnina um athyglisverðustu áhugaleiksýningu ársins 2008...........

Þvílíkur heiður og þvílík spenna. Þetta kom mér mjög á óvart, ekki það að ég tryði ekki á sýninguna okkar Gaukshreiðrið heldur hafði frekar litla trú á fyrirkomulagi keppninnar.

Fagnaðarlátum okkar Halafélaga og Peða ætlaði seint að linna og sannleikurinn var lengi að síast inn. Já ég er ekki enn alveg viss um að þetta sé satt, ætla að tékka á þessu þegar ég verð búin að sofa í eigin rúmi eina nótt eða svo.....

Ferðasagan í mýflugumynd er svona:
Pikkaðir upp tveir ólofaðir gæjar í Halakaggann, brunað í ríkið, rennt norður á Sauðárkrók á Sæluviku, út að borða, Peðsformaður pikkuð upp, faríð í leikhús á Króknum, farið að Bakkastöðum, djammað, sofið borðað og fundað og fundað og fundað um leiklist jú smá næring líka. Pása smá leggja og extreme makeover, hátíðarkvöldverður, leiklist og ræður, Tinna og keppninni, sigur í höfn, spenna, spenna og gleði og spenna, sími, sími, sími, Geirmundur í skagfirskri sveiflu, sími, djamm, spennufall, svefn, morgunmatur, fundur, greidd atkvæði í gríð og erg, matur, pakkað í halakaggann m.a. 3 peðum í skottið, keyrsla, sími, fundur á bar!!! heim, sími, uppfærsla á vefnum www.halaleikhopurinn.is með nýjustu fréttum, sími, blogg.

Það sem þetta ævintýri okkar hefur í för með sér er að mér skilst á mér vitrari mönnum að við erum að fara að sýna Gaukshreiðrið í Þjóðleikhúsinu í júní. Ég sem hélt ég væri að sigla inn í rólegheitavor.........

ja hver hefði átt von á þessari atburðarrás


Undir rauðri súð

Ég fékk smá fortíðar flassback í gærkvöldi. Fór að hugsa um árin sem ég átti undir eldrauðri súð og þakglugga. Veggirnir veggfóðraðir með eldrauðu veggfóðri með frönsku mynstri. Súðarskápur inn af herbergina þar sem leynifélagið átti aðsetur. Nei kannski var það starfandi meðan hvíta tímabilið í súðarherberginu var og net strengt á vegg og setið á kistu, netakúlur og rauðvínsflöskur í bastkörfu aðal stássið fyrir utan skattholið góða með speglinum undir lokinu.

Já ég fór í gærkvöldi í Borgarleikhúsið og sá Jesús Krist Súperstar með mínum heittelskaða og vinapari. Ég skemmti mér stórvel og minningarnar hrönnuðust upp. Fyrsta stóra hljómplatan sem ég eignaðist var einmitt Jesús Kristur Súperstar keypt í plötubúð sem var í gamla moggahúsinu í Aðalstræti og Karnabær í kjallaranum. Sú plata var spiluð ansi mikið en þó ekki alveg í gegn því hún er til hér enn þó nú eigi ég þetta fyrir löngu á CD líka. Þetta voru skemmtilegir tímar undir súðinni ég átti á þessum tíma ferðaplötuspilara sem var trékassi með loki og handfangi, svona líkt og hattaskja. Hann entist mér ansi lengi frameftir eða að mig minnir allt til 1977 þegar minn heittelskaði kom inn í líf mitt með fullkomnari græjur.

Fyrsta litla hljómplatan var aftur á móti með Flosa Ólafssyni hana keyptum við Bíbí vinkona mín á þeim árum saman eftir að hafa upplifað mikil ævintýri á Laugarvatni um verslunarmannahelgina þar sem hann söng Það er svo geggjað að geta hneggjað. Sú plata glataðist og því miður líka vinátta okkar Bíbí, hef ekki heyrt af henni árum saman. Kannski maður fari að gera eitthvað í því.

En aftur að sýningunni sem var stórgóð í  marga staði þó var aðalatriðið tónlistin alls ekki nógu vönduð að mínu mati, en eins og allir vita hef ég ekkert vit á músík svo það er bara þannig. En sviðsetningin heillaði mig og ansi mörg skemmtileg element í sýningunni. Búningarnir heilluðu heldur ekki, mér fannst þeir sundurlausir sem er eitthvað sem ég vil ekki sjá í atvinnuleikhúsi. En kvöldið var dásamlegt og flassbackið gott.

Á föstudagskvöldið dró ég sömu vini með mér í Möguleikhúsið að sjá 39 1/2 viku hjá Hugleik. Ég verð að segja það að það er ein sú albesta sýning sem ég hef séð í vetur. Ég kom mjög heilluð út. Þau eru að gera fullt af fínum hlutum hjá Hugleik og Hrefna hefur þarna skilað ansi góðu verki. Hipp hipp og húrra fyrir Hugleik.

Takk Stebba og Labbi fyrir að koma mér í leikhús tvö kvöld í röð.

Fór líka á aðalfund hjá Sjálfsbjörg á höfuðborgarsvæðinu um helgina þar sem allt gekk eins og í sögu og reikningarnir stórglæsilegir og lofa góðu fyrir framtíð félagsins.

Fórum svo í 6 ára afmæli hjá sætasta strák á íslandi honum Gabríel. Fengum þar hina fínustu veislu og hittum nýja kærastann hennar Lovísu. Vonandi gengur þeim allt í haginn. Hittum svo part af tengdafjölskyldunni í dag, svo ég held bara helgin hafi verið notadrjúg til hittinga.

Framundan er svo ýmislegt í vikunni, fundir og undirbúningur næsta ferðalags. En fyrst verður mætt á ný hjá sjúkraþjálfaranum í píningar og nú fær hann splunku nýja greiningu á færibandi að fást við, festumein í hásin, hlakka ekki til.


Gleðilegt sumar - Vetrarannáll

Veturinn var nokkur sérstæður þetta árið. Hófst og endaði á mjög svo óvæntum utanlandsferðum. Á fyrsta vetrardag var ég stödd í Greyton í s. afríku í boði bróðir míns og mágs. Þar dvaldi ég í góðu yfirlæti í rúmar 3 vikur og lenti í hinum ýmsu ævintýrum. Sigraðist á ýmsum djöflum og kom heim sterkari en fyrr. Hélt uppá 50 ára afmælið mitt með Villa bróðir og þremur norskum valkyrjum í safaríferð þar sem ég komst óvænt í snertingu við litla hjörð af Buffalódýrum sem ég vissi þá ekki að væru neitt hættulegir og fór að klappa þeim við skelfingu annarra viðstaddra. Meira má lesa um ferðina í eldri bloggfærslum frá okt. 2007. Og myndir frá henni eru í pikasa myndunum.

Þegar heim kom sökkti ég mér í leiklistina sem aldrei fyrr. Æfingar á Gaukshreiðrinu hófust í nóvember og alls kyns undirbúningur stóð yfir. Seint gekk að manna þetta stóra verkefni og ýmsar uppákomur óvæntar urðu á vegi okkar í ferlinu. Þannig að óvenju mikil vinna lenti á mér þó ég hafi verið að vinna með frábæru fólki. En þetta var bara gaman og mjög lærdómsríkt.

Guðmundur mágur kom heim í nóv. líka og ég átti góðar stundir með honum sem var gott.

Þegar ég kom frá Afríkunni var minn heittelskaði orðinn frægur uppistandari og allt í einu orðin tæknimaður Hjólastólasveitarinnar sem var stofnuð með pompi og prakt og troðið upp víða. Meðal annars norður til Akureyrar, þar sem þau tróðu upp í 4 grunnskólum sama morguninn og transporteruðum á milli í eðalhjólastólabíl. Skemmtilegur hópur sem er sprottinn uppúr því verkefni og á eflaust eftir að setja mark á sumarið hjá mér.

Ég missti mig í snemmbúnum jólaskreytingum þetta árið og þótti notalegt að nota þá frá frídaga sem gáfust við jóladútl með barnabarninu og fjölskyldunni. Sonurinn var atvinnulaus framan af vetri og átti í ýmsu basli við vinnuleitina en hún bar árangur á endanum og er hann ánægður þar núna og farinn að taka lit strax í útivinnunni. Dóttirin fékk veglega stöðuhækkun í vetur og ánægð í sínu starfi. Tengdasonurinn ákvað hins vegar í lok vetrar að yfirgefa skútuna við mikinn söknuð. Prinsessan hefur stækkað mikil ósköp er orðin 153 cm á hæð. Hún er búin að æfa dans í allan vetur og við keyrt henni og sótt og því haft hana eftir skóla tvo daga í viku og það hafa sko verið miklar gæðastundir. Hún hefur líka lesið þvílík ósköp af bókum af hinu ýmsa tagi að manni stóð nú ekki á sama á tímabili. Hún skilar alltaf fullu húsi stiga úr skólaprófunum og stendur sig mjög vel. Er ekki enn búin að læra að vera óþekk. En er sönn prinsessa.

Í vetur hef ég starfað í hinu ýmsa nefndarstarfi á vegum Sjálfsbjargar og það tekið sinn tíma en bara verið gaman að vinna að þeim málefnum með góðu fólki. Sjálfboðastarfið hjá Rauða krossinum hefur líka fengið sinn tíma en ég er þar í kynningarhóp sem fer inn á geðdeildir og kynnir Vin. Ég hef sótt Vin jafn og þétt í vetur og tekið þar þátt í ýmsu. Heilsuhópurinn stendur þar uppúr þar fær maður að fókusera vikulega. Nú svo hefur starfið í Ferðafélaginu Víðsýn líka verið gjöfult. Fórum í aðventuferð í Mósó í desember. Þar höfum við líka verið að skipuleggja ferðir sumarsins 2008 og óvænt aftur er ég á leið til Danmerkur í sumarhús í Gilleleje með þeim í lok maí, á Sólheima næsta haust og sitthvað fleira. Mjög gefandi starf sem þar fer fram og hefur byggt mig mikið upp.

Ég hef verið í sjúkraþjálfun meira og minna tvisvar í viku í allan vetur og ýmsar aðferðir prófaðar á mér og einhvern veginn hefur Ágústi þjálfara tekist að halda skrokknum mínum einhvern veginn gangandi, þó ég hafi ekki verið samvinnuþýð á stundum. Og alveg gleymt að hugsa um heilsuna sem skildi sökum anna. Þarf að fókusera betur á það. Baráttan við Tryggingastofnum er alltaf hin sama, ömurlegt kerfi þar sem ávallt þarf að vera að standa í veseni út af engu. Árangurinn oftast lítill líka. Þó urðu þau merku tímamót í vetur að afnuminn var frádráttur vegna tekna maka. Það var mikið baráttumál hjá mér og var það atriði sem ég hef alltaf verið ósáttust við. Fannst ég missa sjálfstæði sem einstaklingur við þá skerðingu. Er sem sagt aftur orðinn sjálfstæður einstaklingur eftir 15 ára ósjálfstæði og fagna mikið.

Óvænt vegna ferðar í jarðaför norður í land í desember þurfti ég að endurskoða hluti úr fortíðinni sem ég hef ekki viljað taka mikið á. Hver veit hvað kemur uppúr því.

Janúar til apríl var svo undirlagður af vinnu við Gaukshreiðrið. Sýningin tókst mjög vel og fengum við til liðs við okkur nokkra nýja starfskrafta. Mórallinn í hópnum var mjög góður og gengu sýningar mjög vel. Ýmislegt óvænt kom uppá og alltaf tókst að redda málum oft úr óvæntustu áttum. Ég var aðstoðarleikstjóri, sýningarstóri, sá um miðapantanir, búninga, heimasíðu ofl. ofl. Svo nóg var af störfum. Við vorum líka að setja upp og vígja mikinn ljósabúnað og tölvuljósaborð sem var keypt í haust, mikil vinna og gleði var í kringum það. Þá tóku stjórnarstörf í Halaleikhópnum mikinn tíma enda mikið umleikis í vetur. Minn heittelskaði var líka að leika í Gaukshreiðrinu auk uppistandsins með Hjólastólasveitinni þannig að það var svo sem ekki nema von að maður segi að lífið í vetur hafi verið leiklist.

Sýningar urðu 11 og þykir það bara gott í allri samkeppninni hér á höfuðborgarsvæðinu. Síðan þeim lauk hefur verið nóg að gera að vinna úr verkefnabunkum sem hafa safnast upp í vetur. Og líka gefist tími til að dytta að listinni. Fór aðeins á flug í skartgripunum og missti mig í prjónaskap. Er nú með á prjónunum mikla hauskúpulopapeysu á prinsinn.

Vorboðinn óvænti var svo að dóttirin bauð mér í mæðgnaferð til Köben sem við komum úr um síðustu helgi. Prinsessan var með í för og skemmtum við okkur mjög vel. Misstum okkur í búðunum þrátt fyrir ömurlega stöðu gengisins, flökkuðum um allt í lestum eins og innfæddar, fórum í Tívolíið og Dýragarðinn í sól. Heimsóttum Sigrúnu systir og nutum þess að borða úti og vera heimsborgarar. Takk fyrir Sigrún mín.

Ekki má gleyma öllum bókalestrinum sem tók óvæntar stefnur með bókaklúbbnum hjá Mörtu smörtu. Já veturinn var gjöfull og góður. Og ég lít björtum og spenntum augum til sumarsins. Ýmislegt í bígerð og eflaust á meira að koma uppí mínar ötulu hendur.

Gleðilegt sumar og takk fyrir veturinn.

Í dag á Villi bróðir afmæli til hamingju með daginn elsku besti bróðir.

 


Komin heim í heiðardalinn :-)

Kvitt kvitt bara að láta vita af mér. Komin heim heil á húfi eftir dásamlega viku með dótturinni og prinsessunni. Við þrjár áttum dásamlega daga í Köben og Dianelund. Meira seinna er Þreytt og sárfætt og ætla að skutla mér í rúmið mitt góða. Ferðasagan í máli og myndum seinna. Missti af opnun á málverkasýningu hjá tveimur vinum mínum á meðan og einum tónleikum hjá mágkonu minni. En svona er lífið þarf að velja og hafna.

Strumpaprófið


spennan eykst

já nú er farið að telja hressilega niður og spennan í okkur mæðgnaþrenningunni að magnast verulega. Nú eru ferðatöskur komnar uppá borð og þvottavélar ganga á fullu á báðum heimilum. Tilhlökkun þeirrar stuttu er þó sínu mest, alveg að springa. Þetta á örugglega eftir að verða góð ferð og gott fyrir okkur þrjár að fá að vera saman og þurfa bara að hugsa um skottið á sjálfum okkur.

Við fórum í gær yfir alla skipulagningu og allt gengur vel. Búnar að búa okkur til tossalista með ýmsum upplýsingu. Við ætlum að vera duglegar að ferðast um með lestunum og ætlum á nokkra staði. Allt stefnir í að við munum eiga stefnumót við fleiri ferðalanga auk Sigrúnar systur í Tívolíinu.

Við hjónin skottuðumst á hæfileikakeppni hjá Sjálfsbjörg sem NÝ-UNG stóð fyrir í gærkvöldið og var þar fullt af hæfileikaríku fólki. Og talsvert af fjöllistamönnum sem var bara stuð. Svo var karokee á eftir.

Á sunnudagskvöldið ætlum við að skella okkur í Óperuna á Cosi fan tutte, sem vinkona okkar hún Ágústa Skúladóttir er að leikstýra. Það verður í fyrsta sinn sem ég fer í óperu. Svo verður bara skellt sér í smá lúr eftir það áður en haldið er í flugið.


Fallegastur

080405%20003a

Hér kemur mynd af fermingardrengnum Óskari Erni sem við vorum í stórglæsilegri fermingu hjá laugardaginn. Myndarpiltur sem stóð sig eins og hetja í veislunni.

080405%20010a

Hér er hann með bróðursonum sýnum Ísaki Orra, Helga og Almar Leó. Auður má vera stolt af þessum strákahóp sínum.

Fleiri myndir úr fermingunni má sjá HÉR

Hún frænka þeirra er ekki eins falleg þessa dagana. Óskari Inga tókst að smita hana hressilega af Hlaupabólu og hún fékk hana af verstu sort. Það er bóla við bólu allur skrokkurinn og höfuðið, lítið þó á útlimum en inní munni, koki og bara allsstaðar. Henni finnst þetta að sjálfsögðu skelfilegt og algerlega viðbjóðslegur sjúkdómur eins og hún segir sjálf elsku prinsessan mín. Vonandi verður það mesta hjaðnað áður en við höldum saman til Köben mæðgnaþrenningin.

 

 


Þögnin rofin

Bla bla bla la la la.

Merkilegt hvað margir eru ofurforvitnir. Margir höfðu samband við  mig eftir hinum ýmsu leiðum til að forvitnast um reiði mína...............

Ætla samt ekki að tjá mig um málið á opinberum vettvangi.

Prjóna eins og óð þessa dagana er að klára bolinn á lopapeysu á prinsinn, gaman gaman.

Smá saxa líka á önnur verkefni sem hafa legið í allan vetur ósnert og smá fundarrispa þessa viku og næstu.

Svo er það bara niðurtalningin 10 dagar :-) fyrir frábæru mæðgnaferðina með okkur þríeykinu. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband