þegi viljandi

er EKKI með bloggleti en held aðeins að mér höndum. Kringum mig hafa gerst undarlegir hlutir sem ég er ekki sátt við. Til að særa nú engan eða tala af mér er viljandi þögn, meðan bræðin rennur af mér.

Annars bara allt gott af mér sjálfri að frétta. Á leið til Köben í mæðgnaferð, í fermingu hjá flottum gaur á laugardag og í saumaklúbb í kvöld.


Þungu fargi af mér létt

Skattskýrslan er alltaf jafn hræðilega mikill baggi á mér. Skil ekki hversu mér reynist þetta alltaf erfitt, sérstaklega að byrja á verkinu. Þetta er búið að liggja á mér eins og þung mara undanfarið. Í gær var ég öll ómöguleg og var meira og minna undir sæng og lágt á mér risið þann daginn. Merkilegur fjandi. Dreif svo í þessu áðan og var enga stund að rumpa þessu af og fyrir prinsinn líka.

Malaði eins og Kisa

Þetta var góður dagur. Byrjaði á fótadekri svo nú er ég eins og ungbarn á hælunum. Þegar heim kom fór minn heittelskaði að tala um kreppuna og verðhækkanir og ma. að bjórinn myndi hækka um helgina!!!

Svo ég bara dreif hann í Kringluna til að birgja upp heimilið af bjór fyrir Kreppuna. Úr varð hin mesta verslunarferð. Komum heim hlaðin pokum eins og við hefðum verið í útlöndum. Dró hann inn í herrafataverslanir að skoða fermingarföt (hann er svo nettur þessi elska) Og fundum ein sem smellpössuðu, keyftum líka stakar buxur. Mér fannst ég ansi góð að fá hann í þetta, því hann er ansi sparsamur í fatainnkaupum þessi elska.

En toppurinn á innkaupaferðinni var samt að ég fann loks skó á mig svo ekki fer ég á táslunum til Köben. Margra mánaða leit bar loks árangur. Keyptum líka lopa í peysu á prinsinn.

Þegar heim kom var ég svo sæl að ég skellti mér í sófann þar sem sólin skein skært inn. Umm sá hiti og notalegheit. Fyrr en varði var ég farin að mala eins og köttur. Steinsofnaði sem er afar sjaldgæft að ég geti um miðjan dag, og það án kæfisvefnsgómsins.


Leiklist ofl.

húfa og vettlingar

Í dag er alþjóðlegi leiklistardagurinn. Í dag finn ég til mikils trega. Í gær hittist allur hópurinn sem tók þátt í Gaukshreiðrinu og fór yfir stöðuna. Hugmyndin var að koma á aukasýningum. Eftir miklar vangaveltur fram og til baka og miklar lausnir enduðum við samt á þeirri niðurstöðu að þessu væri lokið þetta leikárið. Aukasýning væri ekki möguleg af ýmsum ástæðum. Hópurinn var svo magnaður svo heilsteyptur og flottur og stóð svo vel saman um að finna allar mögulegar lausnir á þeim vanda sem blasti við. Ekki einn maður sagði er ekki komið nóg, eða ég er orðin þreyttur, eða ég nenni þessu ekki eða bara neitt í þá áttina eins og stundum hefur verið þegar fólk er búið að vinna í ákv. verkefni, sem að auki er mjög krefjandi, mánuðum saman. Í þessu tilfelli síðan í byrjun nóv. 2007. Frábær hópur sem var mikil forréttindi að fá að vinna með. Þegar niðurstaðan var fengin fór hópurinn að taka sýninguna niður, ganga frá öllu mögulegu og ómögulegu og taka til og allir með bros á vör en trega í augum.

Jæja en setti hér fyrir ofan mynd af húfunni og vettlingunum sem ég kláraði í vikunni. Allt í stíl. Nú bíð ég bara spennt eftir myndum af Óskari Inga í þessu öllu saman, en hann hefur ekki verið myndahæfur undanfarið vegna hlaupabólu. Sonurinn er búinn að panta næstu peysu vil hauskúpumynstur.... Á einhver uppskrift? annars skálda ég  hana bara upp.

Í dag fór ég á stússflakk til að dreifa huganum frá treganum. Skutlaðist sem leið lá í Vin nema hvað. Þar fórum við Bjögga að funda smá vegna Danmerkurferðarinnar þeirra seinni hjá mér þetta árið í maí. Skellti mér svo á samráðsfund geðathvarfanna á höfuðborgarsvæðinu í Læk í Hafnarfirði. Alltaf hressandi að hitta hina. Helst fréttirnar úr þeim bransa eru að það er allt að gerast í Björginni í Keflavík og mikið spennandi starf og flutningar í uppsiglingu þar. Svo var verið að kynna fyrir okkur List án landamæra heilmikið spennandi þar svo engum ætti að leiðast í vor.

Fór svo í Halastúss að eyða peningum áður en fjárhagsárinu lyki :-)

Keypti í leiðinn nýja hátalara fyrir minn heittelskaða við tölvuna hans.

Seinniparturinn og kvöldið hefur svo farið í stórþvotta einn mikinn. Jú jú það þarf að þvo alla búningana úr leikritinu og gess hu......

Er komin í startholur að gera það sem mér finnst allra allra leiðinlegasta djobb ever.......jú skattskýrslan, þoli það ekki og bara get ekki byrjað. Sótti þó um frest.... hef nokkra daga enn en þeim fer fækkandi. Hver veit hvað morgundagurinn ber í skauti sér.

Ég veit þó á hverju hann byrjar. Ætla í fótsnyrtingu í fyrsta sinn á ævinni. Fékk gjafabréf í afmælisgjöf í haust og nú er kominn tími til að nota það. Á reyndar fleiri gjafabréf ónotuð og loforð um leikhúsferð ofl. svo kannski maður helli sér bara í dekur .....


Handverk klárað og myndað

 

Lopapeysa og húfa

Kláraði í gær að ganga frá þessari lopapeysu sem ég var að prjóna á hann Óskar Inga. Var meira og minna allan gærdaginn að basla við að setja rennilásinn í. Hef aldrei gert það áður, alltaf fengið hana Báru mína til þess. En ákvað að reyna ég hlyti að geta það eins og aðrir. Er mjög stolt af henni og hlakka til að sjá hvort hún passar á guttann. Mynstrið er úr blaði sem ég átti en húfuna skáldaði ég upp í stíl við peysuna. Mér finnst nauðsynlegt að krakkar á þessum aldri eigi húfu í stíl við peysuna.

Ísland

Fór svo í dag og tók myndir af nokkrum skartgripum í viðbót til að setja í albúmið hér við hliðina sem hefur verið vanrækt lengi. Og búin að selja helling sem gleymdist að taka myndir af. Hér er ég mest að leika mér með slípað hraun sem mér finnst ofsa fallegt.

Sprengisandur

Hraun og glerrör

hraun eyrnalokkar

Hraunmolar sem ekki vildu tolla í fókus

hálsfesti og eyrnalokkar

Stál, blátt gler og blóðsteinn áhrif frá afríku þetta var svaka vinsælt þar.

Rómó

Ein rómó

 


Í tóma rúmi

Nú er allt fallið í dúna logn í félagsmálunum meira og minna. Síðustu sýningu á Gaukshreiðrinu lokið, aðalfundur Víðsýnar búinn, kjörnefnd Sjálfsbjargar lokið störfum og ég vafra hér um íbúðina og veit ekki í hvorn fótinn ég á að stíga. Þessi vetur hefur verið með þeim annasamari hjá mér, ég er búin að vera að síðan í september í alls kyns verkefnum af hinum ýmsa tegundum. Nú er ég mjög meðvituð um að hvíla mig og það er eitthvað sem ég kann mjög illa við. Er bara eirðarlaus, en strögglast við að gera sem allra minnst.

Ekki það að það séu ekki næg verkefni, jú jú enginn hörgull á þeim en þarf að forgangsraða hvíldinni heilsunnar vegna.

Lokasýningin á Gaukshreiðrinu var á laugardaginn fyrir fullu húsi, sýningin á undan líka stappfull svo það var stuð. Alltaf er mikill söknuður þegar svona miklu verkefni lýkur. Við erum búin að vinna þétt saman 25 manns frá því í nóvember og aðrir 15 komið við sögu á hinum ýmsu tímabilum verksins. Frábær hópur sem mér finnst mikil forréttindi að fá að vinna með. Að sjálfsögðu var heljarinnar lokapartý á eftir fram undir morgun eins og Halar einir gera best.

Framundan er páskafrí sem vonandi nýtist til fjölskyldu og vinahittings á góðum stundum. Ætla viljandi að fresta öllu sem ég get og gera bara það sem mér finnst skemmtilegt og uppbyggjandi fram yfir páska. Þá fer ég kannski að grafa í verkefnahrúgunni og tæma hana fyrir sumarið og Krikann.


Hróshópur

Ég fékk þetta í tölvupósti og vildi deila þessu með ykkur. Þar sem ég er í herferð gegn ruslpósti (fullt af krúttlegu dóti sem verið er að senda mér endalaust, en stundum leynist vágestur með) og hef beðið vini mína að hætta að senda mér þannig póst. Nú lenti ég bobba þar sem ég vil að þið fáið að lesa þessa stuttu sögu, svo ég ákvað að birta hana bara hér:

Kæru vinir Sendi ykkur sögu dagsins til umhugsunar. 
Dag einn bað kennari nemendur sína að skrifa nöfn bekkjarfélaganna á blað. Þeir áttu að skrifa eitt nafn í hverja línu og hafa auða línu á milli. Síðan bað hún nemendur sína að hugsa um það besta um hvern og einn og skrifa það fyrir neðan nafnið. Þegar nemendur fóru úr tíma skiluðu þau blöðunum til kennarans sem fór með þetta heim og bjó til lista yfir hvern nemanda og safnaði saman því sem bekkjarfélagarnir höfðu skrifað. Síðan fengu nemendurnir þetta í hendurnar daginn eftir.

Þegar þeir lásu þetta urðu þeir hissa á öllu því jákvæða sem bekkjarfélagarnir höfðu skrifað. Þeir höfðu ekki gert sér grein fyrir að þeir skiptu svona miklu máli. Kennarinn vissi ekki hve mikið nemendurnir ræddu þetta sín á milli eða við foreldrana en þetta hafði tilætlaðan árangur. Nemendurnir urðu ánægðari með sig og aðra í bekknum, þeim leið betur. 

Lífið hélt áfram. Mörgum árum seinna lést einn nemendanna sem hét Magnús og kennarinn ákvað að vera viðstaddur jarðarförina. Einn vinur hins látna gekk til hennar og spurði hvort hún hefði verið kennarinn hans og sagði að Magnús hefði talað mikið um hana. Foreldrar hins látna komu einnig til hennar og vildu sýna henni svolítið. Þau höfðu fundið samanbrotið blað í veski Magnúsar og var það listinn með öllu jákvæðu atriðunum frá bekkjarfélögunum sem kennarinn hafði fengið honum fyrir mörgum árum. 'Þakka þér fyrir að gera þetta, því eins og þú sérð þá skipti þetta hann miklu máli' sagði móðir Magnúsar. Fyrrum bekkjarfélagar tóku undir það og sögðu að þessi listi hefði fylgt þeim öllum gegnum lífið og skipt þá mjög miklu máli. Þetta var eitt af því sem þeim þótti vænst um. Þegar gamli kennarinn heyrði þetta settist hún niður og grét, bæði syrgði hún Magnús og svo var hún hrærð yfir því að hafa snert nemendur sína með þessu uppátæki. 

Flest okkar hegðum við okkur þannig eins og að við höfum gleymt því að lífið endar einn góðan veðurdag. Enginn okkar veit hvenær sá dagur verður. Þess vegna bið ég þig að segja við þá sem þér þykir vænt um hvað þeir séu þér mikilvægir og eigi sérstakan stað í hjarta þér. Gerðu það oft áður en það verður of seint. Eitt af því sem þú getur gert er að senda þetta áfram. Ef þú gerir það ekki þá hefur þú misst af tækifæri til þess að gera eitthvað gott fyrir þá sem eru þér mikilvægir.

Ef þú hefur fengið þetta bréf þá er það af því að einhverjum þykir vænt um þig og að alla vega einni persónu finnst þú vera mikilvæg/ur. Sendu þetta áfram. Sýndu að þér er annt um vini þína. Mundu að þú uppskerð eins og þú sáir. Mundu að þú ert mikilvægur einhverjum. Vona að dagurinn verði þér finn og sérstakur því þú skiptir miklu máli!


Dásamlegir bloggvinir

Já vinskapur bloggvina er mjög sérstakur og skemmtilegur. Á blogginu hennar Mörtu smörtu er leshringur, sem ég tek þátt í svona oftast. Við lesum bók og ræðum hana svo í kommentunum mánaðarlega. Nú brá svo við í síðustu lotu að ég gat ekki útvegað mér bókina og setti inn kveðju til hinna í leshringnum, þar sem ég sagðist sitja hjá þessa lotu.

Ég var ekki fyrr búin að því en næsti bloggvinur hann Ágúst var búinn að bjóða mér bókina til láns og ekki nóg með það þessi góði bloggvinur er búinn að koma með bókina og stinga henni í póstkassann minn. Er þetta ekki dásamlegt samfélag.

Takk Ágúst og Marta og hinir leshringsvinir þið eruð æði. Í kvöld mun ég hefja lesturinn.


Hor tekið völdin

Eftir rólega helgi vakanaði ég full af hor mörgu sinnum í nótt. Hálsinn aumur en er annars hress. Flensupíkan sem er búin að vera allt í kringum mig er lent. Ég ætla að fara vel með mig og taka það rólega.......

Laugardagurinn var annasamur þar sem hið árlega fjáröflunarbingó var. Mæting bara sæmileg og bíð ég spennt eftir tölum frá gjaldkeranum. Á laugardagskvöldið dreif ég mig með vinum mínum að sjá Pabbann í Íslensku Óperunni og skemmti mér stórkostlega. Bjarni alltaf góður og svo er andinn í gamla bíó alltaf svo góður og margar góðar minningar sem maður á þaðan.

Sunnudagurinn varð alger letidagur, slugsað heima og ekkert framkvæmt af viti, og þó prjónaði heilmikið og eldaði svið og tilheyrandi um kvöldið.


Hvernig væri að skella sér í Bingó með alla fjölskylduna?

Hið árlega fjáröflunar BINGÓ Ferðafélagsins Víðsýn verður á morgun laugardag kl. 14.00 í Hátúni 10 á 9. hæð. Húsið opnar kl. 13.30.

Spilaðar verða 10 umferðir og er fjöldi glæsilegra vinninga, svo sem: Gisting fyrir tvo á Hótel Eddu, gjafakörfur frá Ölgerðinni, gjafabréf fyrir tvo út að borða á Carpe Diem, gjafabréf í fótsnyrtingu og handsnyrtingu, gjafabréf í leikhúsin og klippingu. Bækur, geisladiskar ofl. ofl.

Spjaldið kostar 500 kr. Veitingar verða seldar  á vægu verði. Ath. tökum ekki kort.

Allur ágóði rennur til að niðurgreiða ferðir Víðsýnar. Allir hjartanlega velkomnir.

Ferðafélagið Víðsýn er félag gesta Vinjar, athvarfs fyrir geðfatlaða. Nánari upplýsingar um félagið er að finna á vef RKÍ HÉR


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband