25.1.2009 | 20:42
Fegin að vera upptekin
Ég var að hugsa áðan, já geri það stundum...... að mikið svakalega er ég fegin að hafa verið á kafi í verkefnum síðan KREPPAN hófst. Ég er að eðlisfari afskaplega forvitin, já ég viðurkenni það alveg, sem leiðir af sér að ég er alger fréttasjúklingur og fréttirnar í haust hafa alls ekki ljómað af gúrkutíð og verið fremur kvíðavekjandi og spennuaukandi það er að segja það litla sem ég hef heyrt af þeim.
Að vera ég er bara alveg fullt 24/7 starf þessa mánuðina. Með þessa óskaplegu leiklistarbakteríu sem bara versnar með hverjum deginum. Er fegin að fundir og æfingar eru yfirleitt alltaf á fréttatíma svo maður hefur getað aðeins stimplað sig út.
Nú er ég líka að hlúa að heilsunni loksins aðeins betur, er í Lifstílsbreytingarprógrammi á Reykjalundi og gengur mjög vel sem komið er. Nú skal takast að snúa á vambarpúkann hægt og bítandi, en ekki er það auðvelt enda púkinn sá meðfæddur og ávallt verið mjög sterkur í mínum karakter eins og forvitnin.
Um næstu helgi munum við hjá Halaleikhópnum frumsýna Sjeikspírs Karnival, svo það er bara stuð og púl. Lítið stress ennþá enda erum við með úrvalsfólk í hverju rúmi. Verið er að hnýta síðustu hnútana og einhvernvegin koma alltaf fleiri og fleiri verkefni en ég er bjartsýn á skemmtilega afkastamikla viku framundan, burtséð frá allri pólitík.
Óttast samt mest að missa Jóhönnu Sigurðardóttir enda finnst mér hún búin að standa sig með afbrigðum vel og á hún allan heiður skilið.
Athugasemdir
Alltaf jafn skemtilegt kringum tig.takk fyrir fadmlagid mín kæra og gangi tér vel á Reykjarlundi.
Knús til tín
Gudrún Hauksdótttir, 25.1.2009 kl. 22:12
Sæl dúllan mín - gaman að sjá þig í netheimum og frábært að heyra af árangrinum þínum. Gangi þér vel og ég veit þér á eftir að ganga ljómandi - þú ferð það á seiglunni - nóg hefur þú af henni.
Ingveldur (IP-tala skráð) 14.2.2009 kl. 10:45
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.