31.12.2008 | 13:26
Nýtt upphaf
Á eftir góðum jólum koma áramót sem boða nýtt upphaf. Ég hef nú ekki verið mikið fyrir að gera áramótaheit en í ár en ég búin að heita mér einu og ætla að halda því fyrir mig enn um sinn.
Undanfarin ár hafa verið full af óvæntum hlutum, góðum og slæmum til skiptis og á ég svo sem ekki von á að það breytist mikið. Nú er komin Kreppa og við þurfum að haga okkur á annan máta heyrir maður um allan bæ. En ég veit ekki hvort það breytir svo miklu fyrir okkur það á eftir að koma í ljós. Þegar maður hefur verið öryrki í 17 ár þá hefur svo sannarlega verið kreppa hjá mér flest árin, svo maður er vanur. Þannig hefur það líka verið hjá stórum hluta þjóðarinnar þó stór hluti hafi geta leift sér ýmislegt síðasta áratuginn eða svo. Þá hefur góðærið alls ekki komið til allra. En ég finn vel fyrir hækkun á matarverði ofl.
En ég er sátt og sæl með minn hlut. Ég er hamingjusöm og á góða fjölskyldu og það er það sem skiptir öllu máli ekki efnisleg gæði. Vonandi þjappar Kreppan ættingjum og vinum betur saman og samhygð eykst vonandi á ný í íslensku þjóðfélagi.
Ég ætla ekki að hafa þennan pistil langan en vil bara óska ykkur öllum Gleðilegs árs og þakka fyrir það gamla. Óska ykkur öllum farsældar og hamingju á nýárinu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
24.12.2008 | 12:54
Gleðileg jól
Ég hef verið löt að blogga undanfarið og er ýmislegt þar að baki, mikið að gera eins og alltaf, heilsan tók heljarstökk afturábak í nokkrum köstum og svo hið hefðbundna annríki jólaundirbúningsins. En í dag eru allir nokkuð hressir og allt að komast á lokastig ekki seinna vænna.
Því vil ég senda ykkur öllum mínar bestu óskir um Gleðileg jól og farsælt komandi ár. Vonandi njótið þið öll þessara daga hvert á sinn hátt. Framundan hjá mér eru líka miklar annar framan af ári svo ég er ekkert viss um að ég bloggi mikið en sjáum til með það.
Hjólastólasveitin er að fara að leggja land undir fót í janúar, Sjeikspírs Karnivalið verður frumsýnt í lok janúar og ég er á leið á Reykjalund. Auk hinna hefðbundnu anna.......
Knús og kossar til ykkar allra
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
11.12.2008 | 20:44
Jólaföndrið mitt í ár ;-)
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
8.12.2008 | 21:14
Óvænt ævintýri
Í síðustu viku vorum við að skreyta hátt og lágt, festa seríur um allar trissur samkvæmt fjölskylduhefðinni. Breyttum þó smá, Palli ekki fá kast englaserían er ekki á sínum stað !!!
Nokkrum dögum seinna ætlaði ég að fara að betrumbæta smá, þá fannst hvergi límbandsrúllan góða sem hafði verið mikið hjálpargagn. Upphófst nú mikið ævintýri við að leita hennar. Ég fór nokkrar umferðir um íbúðina og kíkti í hin ýmsu skúmaskot. Þar sem mikið hefur verið að gera hjá okkur hjónum síðan í október, þá hefur ýmislegt safnast fyrir án þess að maður taki nokkuð eftir því. En þegar maður fer að kíkja í hverja smugu heima hjá sér þá er það heilt ævintýri það sem maður finnur ekki og var hreinlega búinn að gleyma að maður ætti, eða dótið sem maður skilur ekki að maður skuli ekki vera búinn að fara með í Sorpu fyrir löngu. Þetta endaði á því að nú veit ég nokkurn veginn hvar flestir hlutir eru í þessum 104 fm okkar nema límbandsrúllan.
Sonurinn glottir við og kastar á mig bummerangi HÚN ER ÞAR SEM ÞÚ LÉST HANA og iðar í skinninu af skemmtun meðan ég æsist öll. Skildi ég hafa sagt þetta oft við drenginn? Ömurleg setning ég lofa að nota hana aldrei aftur......
Í gær þegar ég var búin að gefast alveg upp á leitinni og búin að sætta mig við að hún hlyti að hafa farið út með ruslinu eins og sunddótið um árið.....
Varð mér litið uppá stóran næstum loftháa bókahillusamstæðu og sé þá glitta í eitthvað þar ofaná. Jú vitir menn þar var límbandsrúlla og það eftir stráksa sem notaði það við að festa seríur þar (já Palli ekki engla). Ég var ekki sein að skella þessu framan í hann þegar hann kom á fætur. Hann brosti og gerði allt sem ég bað hann um þann klukkutímann.......
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
30.11.2008 | 20:40
Uppáhaldsmánuðurinn minn
Ég er mikil jólastelpa og elska allt stússið kringum jólin. Þetta er því uppáhaldsmánuðurinn minn. Í dag fór ég í árlegt smákökuboð í tengdafjölskyldunni þar sem Olla mágkona var búin að baka glás af smákökum og góðgæti af ýmsum toga. Namm namm takk fyrir mig.
Ég er nú orðin ansi löt við baksturinn, en þó er smá þrýstingur frá börnunum mínum um ákveðna kökusort sem mamma heitin bakaði alltaf. Kannski ég láti það eftir þeim þetta árið enda eiga þau bæði skilið að dekrað sé við þau. Verst hvað bakaraofninn er skítugur, mér hryllir eiginlega við að fara að þrífa hann en það er nú það eina neikvæða við jólaverkin :-)
Í gær þvoði ég stofugluggana í áföngum og byrjaði að skreyta. Í fyrra keypti ég þessar fínu ljósagardínur á útsölu eftir jól og setti þær upp í morgun, og alltaf jafn óheppin ein var gölluð og logar ekki á henni allri..... man ekki hvort það var í Húsó eða Rúmfó... vona bara að ég fái eins. Þarf nefnilega 3 í gluggann hann er svo stór......
Ég ætla að hemja mig til morguns með eldhúsgluggann, minnug verkjakastanna sem hafa verið að hrella mig eftir dugnaðarköstin.
Í gær vorum við líka mjög þjóðleg, elduð svið og rófur í tilefni dagsins, sonurinn varð 28 ára og það er uppáhaldsmaturinn hans. Hekla var nú ekki hrifin en fékk sinn grænmetisrétt as usual.
Nú er farið að hægjast um í leiklistinni eftir mikla törn í nóvember, þarf samt að huga að leikmynd og búningum í desember.
Hróður leikhópsins berst víða, við vorum sæmd Kærleikskúlunni í vikunni og erum sæl með hana.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
25.11.2008 | 15:51
Hneyksli - vér mótmælum öll
Nú finnst mér vera farið hressilega yfir strikið í niðurskurðinum. Stómavörur eiga að vera fríar og ekki orð um það meir. Þetta eru ekki nema 300 einstaklingar, þó við séum á hausnum þá ráðum við við þetta. Seljum ráðherrabílana og málið er leyst.
Nei ég varð alveg bálreið þegar ég sá þessa frétt og hvet ykkur öll til að lesa hana á linknum hér fyrir neðan.
Eins og að rukka fyrir klósettferðir | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
24.11.2008 | 22:58
Ályktun útifundar BSRB, Félags eldri borgara í Reykjavík, Landssamtakanna Þroskahjálpar og Öryrkjabandalags Íslands
Útifundur haldinn á Ingólfstorgi í Reykjavík 24. nóvember 2008 skorar á stjórnvöld að beita öllum tiltækum ráðum til að verja velferðarkerfið sem byggt hefur verið upp af almenningi á undanförnum áratugum. Þegar kreppir að í samfélaginu er mikilvægt að beita velferðarkerfinu til jöfnunar. Áralangri baráttu fyrir réttlátu þjóðfélagi má ekki kasta á glæ.
Fundurinn telur að afleiðingar 10% niðurskurðar á velferðarútgjöld ríkisins verði skelfilegar og þjónusta margra stofnana muni lamast og atvinnuleysi aukast. Fundurinn lýsir fullri ábyrgð á hendur þeim stjórnvöldum sem standa að slíkum aðgerðum.
Fundurinn krefst þess að staðið verði við lögbundin ákvæði um hækkun grunnbóta almannatryggingakerfisins nú um áramót. Þeir hópar sem þurfa að framfleyta sér af greiðslum frá almannatryggingum þola enga skerðingu þar sem greiðslurnar nægja ekki fyrir nauðþurftum.
Þeir hópar sem að þessum fundi standa bera enga ábyrgð á hruni bankakerfisins. Í okkar hópi er ekki að finna fólkið sem skammtaði sér sjálfu ríkulega og tók sér vald til að ráðskast með velferð þjóðarinnar. Við lýsum fullri ábyrgð á hendur þeim öflum sem þannig véluðu og ætlumst til að þeir axli ábyrgð á gerðum sínum enda réttlættu þeir ofurlaun sín með þeirri ábyrgð sem þeir bæru. Nú er komið að skuldadögum.
Íslenskt samfélag stendur á krossgötum. Útifundur haldinn á Ingólfstorgi í Reykjavík 24. nóvember skorar á alla landsmenn að standa saman í því að sjá til þess að hið nýja Ísland byggi á samkennd og sameiginlegri ábyrgð okkar hvert á öðru. Það að vega að núverandi velferðarkerfi er ekki fyrsta skrefið á þeirri vegferð. Verjum því velferðina sem fyrsta áfanga að bættri framtíð.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.11.2008 | 17:59
Verjum velferðina! mannréttindi - þjónustu - menntun - atvinnu
Samstöðufundur á Ingólfstorgi mánudaginn
24. nóvember kl. 16.30 - 17.30
Dagskrá:
Kl. 16.30 Tónlistarfluttningur
Hljómsveit Tómasar R. Einarssonar ásamt Ragnheiði Gröndal söngkonu.
Kl. 16.45 Ávörp
Gerður A. Árnadóttir, formaður Landssamtakanna Þroskahjálp.
Árni Stefán Jónsson, varaformaður BSRB og formaður SFR.
Halldór Sævar Guðbergsson, formaður Öryrkjabandalags Íslands.
Margrét Margeirsdóttir, formaður Félags eldri borgara í Reykjavík.
Fundarstjóri: Björg Eva Erlendsdóttir
Styðjum hvort annað! Mætum öll! Sterkari saman!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.11.2008 | 23:10
Loksins
Í nótt stóð ég í miklum rökræðum við mig sjálfa. Var gjörsamlega búin á því eftir að hafa nýtt alla orku mína á fullu gasi í nánast hálfan mánuð samfleitt. Á svona stundum koma allar efasemdirnar upp og púkinn og engillinn taka einvígi í sitt hvort eyrað á mér.
En allavega í dag er ég sátt og í nettu spennufalli. Nóvember er búinn að vera verulega annasamur svo vægt sé til orða tekið. Þegar maður er í leiklist á tveimur stöðum, í félagsmálum á 6 póstum eða svo þá vill stundum allt vera vitlaust í einu.
En þetta er það sem heldur mér gangandi og frá þunglyndinu að vera á kafi í áhugamálunum og er mun betra en geðlyfin og allar aukaverkanir þeirra.
Mest er ég hissa á hvað fjölskyldan er þolinmóð í þessu öllu saman, jú og án þeirra gengi þessi ósköp aldrei upp. Vonandi er maður að gera góða hluti einhverstaðar.
Í gær hló ég svo mikið að ég er nánast með harðsperrur í magavöðvunum. Já það var stuð á Uppi Hvað uppistandinu í Iðnó. Skemmtilegur hópur sem frábært er að vinna með og mjög gefandi.
Nú held ég að sú að koma rólegri tímar og þó. Karnivalið er á fullu og mikið stuð hjá Halaleikhópnum. Skemmtilegur hópur og skapandi. Dáldið margir endar að halda utan um en við erum mörg sem höldum í þá.
Af félagsmálunum ætla ég að segja fátt enda meira og minna trúnaðarmál það sem þegar hefur ekki komið fram hér og víðar.
Í dag fékk ég tvisvar sinnum frábærar fréttir annað sem snertir mig persónulega og hitt Halaleikhópinn en aftur má ekki greina frá því strax en það kemur fljótlega.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
12.11.2008 | 00:54
UPPI HVAÐ í KREPPUGRETTU
Eðalhúmor, gæðaleikur, algjör snilld ! - Harpa Arnardóttir
Sunnudagskvöldið 16. nóvember kl. 21.00 mun uppistandsgengið HJÓLASTÓLASVEITIN tröllríða Iðnó ( samt ekki bókstaflega ) og flytja frumsamið grínefni án þess að standa upp !
HJÓLASTÓLASVEITINA skipa 4. uppistandarar Guðríður Ólafsdóttir, Kolbrún Dögg Kristjánsdóttir, Leifur Leifsson og Örn Sigurðsson.
HJÓLASTÓLASVEITIN hefur verið starfandi í rúmt ár og skemmt 1472 landsmönnum á öllum aldri við frábærar undirtektir og mun nú sem vanalega láta gamminn geysa um landsins mál og ómál, stjórnmál og óstjórnun, og það sem kallast gæti KREPPT AÐGENGI!!
KOMUM SAMAN OG STÖNDUM SAMAN...
JA NÁTTURULEGA EKKI ALLIR...
KREPPUMST SAMAN... Í FRAMAN !
Gestir kvöldsins eru: Uppistandarinn, tenórinn, trúðurinn, heimsmaðurinn og eineltisbarnið STÚFUR eins og við höfum aldrei séð hann áður !
Brúðumeistarinn BERND OGRODNIK sem mun sýna brot úr hinni margrómuðu sýningu
Umbreyting af sinni alkunnu snilld !
Kynnir: ÁGÚSTA SKÚLADÓTTIR
Miðaverð 1000 kr.
Miðasala í síma 562-9700
IÐNÓ KL 21.00
Húsið opnar kl. 20.00j'
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)